top of page

Umboðsmaður Alþingis

Við leituðum til umboðsmanns Alþingis í mars 2016 þegar okkur var ljós lagabreytingin. Spurðum ráða. Starfsmaður umboðsmanns sýndi málinu áhuga en sagði að umboðsmaður tæki ekki að sér mál sem tilheyrðu eða féllu undir störf Alþingis. Stakk síðan upp á að við sendum stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis erindi. Það gæti leitt til þess að málið færi þá aftur til ráðuneytisins og þá hugsanlegt að umboðsmaður gæti haft aðkomu að málinu síðar. Þetta var gert og þegar svar barst loks frá Ögmundi Jónassyni, formanni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í október 2016, var svarið áframsent til að halda skrifstofu umboðsmanns upplýstri. Skömmu síðar kom svo höfnun þess að málið yrði tekið fyrir af umboðsmanni. Höfnunin var byggð á misskilningi því erindi um aðkomu umboðsmans hafði ekki verið sent.

 

Eftir að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið neitaði að svara skriflegum spruningum um tilurð lagasetn-ingarinnar með bréfi 30.11. 2016 var umboðsmanni Alþingis sent formlegt erindi. Í svari umboðsmanns dags. 28.12.2016 kemur fram að þrátt fyrir skýr ákvæði þess að hann sé réttargæslumaður borgara gagnvart stjórnsýslunni og að meginregla stjórnsýslulaga, upplýsingalaga og siðareglna sé sú að svara beiðnum eða ábendingum, þá treysti hann sér ekki til að beita sér í þessu máli.

 

Nefndi hann tvíþætt eðli starfa ráðherra, þ.e. mörkin milli hins stjórnmálalega starfs hans og ráðuneytis, sem þýði að ráðherra leyfist í raun að gera mistök eða vanda ekki til verka. Vörnin gegn slíku, t.d. þegar kemur að lagasetningu, sé hins vegar hjá Alþingi. Störf Alþingis og stjórnsýsla í þágu Alþingis sé háð eftirliti þingforseta samkvæmt lögum um þingsköp Alþingis. Það væri ekki í verkahring umboðsmanns að láta í ljós álit sitt á störfum Alþingis, þ.m.t. hvernig til hefur tekist um efni þeirra ákvarðana sem Alþingi tekur í formi laga og annarra ályktana og einnig utan starfssviðs hans að hafa eftirlit með störfum nefnda á vegum Alþingis. Þannig gæti umboðsmaður ekki tekið á þessu máli sem óhjákvæmilega snerti svið sem væru utan starfssviðs hans.

Við vorum ekki sátt við þetta svar og eftir samtal við skrifsstofu umboðsmanns varð úr að fara fram á endurupptöku sem send var með bréfi dags. 13.1. 2017. Tveim vikum síðar hringdi Tryggvi Gunnarsson og vildi skýra afstöðu sína og sitja áfram fast við sinn keip. Hann hélt því fram að í raun væri allt komið fram hvað vinnubrögð ráðuneytisins varðaði í athugasemdum með frumvarpinu, það staðfestist af svari ráðuneytisins. Hann sagðist jafnframt hafa kynnt sér efni frumvarpsins og athugasemdir okkar og sitt persónulega álit væri að um meiriháttar en ekki minniháttar breytingu væri að ræða á lögunum, sem samræmdist ekki 1. grein laga um lax- og silungsveiði og þeirri undanþágu frá stjórnarskrárbundnu félagafrelsi sem er forsenda skylduaðlildar að veiðifélögum.

Sjá einnig heildstætt efnisyfirlit

... sem teygir anga sína um refilsstigu réttlætisins,

til bakherbergja stjórnsýslunnar og afkima Alþingis.

bottom of page