top of page

Til: Katrínar Jakobsdóttur, Bjarna Benediktssonar og Sigurðar Inga Jóhannssonar.

Sæl þið þrjú. Við hjón í Fossatúni í Borgarfirði, Steinar Berg Ísleifsson og Ingibjörg Pálsdóttir, höfum nú í tvö ár leitað eftir því innan stjórnsýslunnar að fá umræðu og leiðréttingu á lögum sem Sigurður Ingi lagði fyrir Alþingi og þið Katrín og Bjarni samþykktuð, en lögin eru afleiðing þess að við unnum mál gegn veiðifélagi okkar. Okkur mætir sniðganga og þöggun. Hér skrifum við ykkur og allt sem við förum fram á er að eiga málefnanlegt samtal.

Við keyptum jörðina Fossatún í Borgarfirði árið 2001 og urðum þar með skyldufélagar í Veiðifélagi Grímsár og Tunguár. Hófum rekstur á ferðþjónustufyrirtæki okkar árið 2005. Skömmu áður ákvað stjórn veiðifélagsins að leigja veiðihús sitt út þannig að það væri sveitahótel utan laxveiðitímans. Okkur ábúendum í Fossatúni þótti sérkennilegt að þurfa vegna skylduaðlildar að standa í samkeppni við okkur sjálf og verða fyrir fjárhagslegum skaða vegna svartrar atvinnustarfssemi sem stunduð var í skjóli veiðifélagsins. Við aðhyllumst samkeppni en hún þarf þá að vera á sama grunni fyrir alla sem keppa. Að lokum ákváðum við að láta reyna á fyrir dómstólum, hvort veiðifélaginu væri heimilt að leigja veiðihúsið út til hótel- og veitingarstarfssemi utan veiðitíma. Þann 13. mars 2014 lá niðurstaða Hæstaréttar fyrir og hún var okkur í hag.

“Viðurkennt er að stefnda Veiðifélagi Grímsár og Tunguár er óheimilt án samþykkis allra félagsmanna að selja veiðihúsið að Fossási í Borgarbyggð á leigu til almenns gisti-­ og veitinga-

rekstrar utan skilgreinds veiðitíma samkvæmt lögum nr. 61/2006 um lax­‐ og silungsveiði.”

Steinar Berg Ísleifsson og Ingibjörg Pálsdóttir ásamt dótturdóttur.

Úr dómsorði Hæstaréttar:

Landssamband veiðifélaga hafði aðkomu að málinu og skömmu eftir niðurstöðu Hæstaréttar gekk formaður þess á fund Sigurðar Inga, þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og fullyrti að niðurstaða Hæstaréttar væri röng. Sigurður Ingi fól formanninum að vinna lagabreytingu sem miðaði að því að heimila hinum dæmda að stunda þá starfssemi sem Hæstiréttur hafði meinað honum að gera. Hvorki var leitað annarra sjónarmiða en þeirra sem formaður Landssambandsins hélt fram, né gagna aflað eða haft samráð við óháða eða andstæða aðila til að ganga úr skugga um hvort raunveruleg þörf væri á lagabreytingu.

Þann 16. febrúar 2015, eða tæpu ári eftir að dómur Hæstaréttar féll, lagði Sigurður Ingi fram frumvarp um breytingu á lax- og silungsveiðilögunum og sagði þá m.a.:

„Unnin hefur verið álitsgerð um eðli, réttarstöðu og heimildir veiðifélaga fyrir Landsamband veiðifélaga af Stefáni Má Stefánssyni, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands og Eyvindi G. Gunnarssyni, dósent við lagadeild Háskóla Íslands.“

Þið, Katrín og Bjarni, hélduð kannski að umrædd álitsgerð hafi verið gerð í tengslum við lagabreytinguna? Hið rétta er að álitsgerðin var greidd af og unnin fyrir Landsamband veiðifélaga tæpum 5 árum fyrr og var aðalgagn Veiðifélags Grímsár og Tunguár í málaferlum okkar. Það hlýtur að vera óeðlilegt í lýðræðisríki að fulltrúa dæmds hagsmunaaðila sé falið að stýra lagagerð til ógildingar nýgengnum dómi gegn honum en útiloka sjónarmið þess sem vann málið. Álitsgerðinni var hafnað af Hæstarétti og því er órökrétt og allt að því galið að gera niðurstöðu hennar að lögum.

Til viðbótar sagði Sigðurður Ingi: „Forsendur dómsins voru byggðar á því m.a. að réttarstaða veiðifélaga væri ekki skýrð með skýrum hætti í lögum nr. 61/2006 hvað varðar meðferð og ráðstöfun eigna veiðifélags [...]“

Trúðuð þið líka þessari rakalausu fullyrðingu? Varla, ef þið hefðuð kynnt ykkur dóm Hæstaréttar. Þar er skýrt kveðið á um að eignarétturinn tilheyri aðildarfélögum í hlutfalli við arðskrá en ekki félaginu sjálfu og að samþykki allra aðildarfélaga þurfi ef félagið fer út fyrir lögbundið hlutverk sitt. Ekki verður séð að lagasetningin hnekki þessu. Til viðbótar virðist augljóst að lagabreytingin gengur í berhögg við ákvæði félagafrelsis 74. greinar stjórnarskrárinnar og forsendur skylduaðildar. Eða teljið þið að hægt sé að skylda fólk til að vera í félagi sem hefur það að markmiði að standa í eignaumsýslu og hámarka arðsemi félagsmanna? Hlýtur þátttaka í slíku félagi ekki að vera valkvæð?

Eftir að hafa staðið í fjögurra ára málarekstri með tiheyrandi kostnaði og leiðindum, horft ásamt lögmanni okkar, Sigríði Rut Júlíusdóttur, á nágrannaerju vaxa og verða að flóknu máli og sjá fjölskipaðan dóm Hæstaréttar samþykkja rök okkar, vorum við reynslunni ríkari. Af hverju, Sigurður Ingi, útilokaðir þú sjónarmið og þekkingu okkar við vinnu lagagerðarinnar í ráðuneyti þínu þegar þú varst í raun að undirbúa lög til höfuðs okkur ábúendum í Fossatúni?

Og afhverju samþykktuð þið, Katrín og Bjarni, þessi illa ígrunduðu lög 30. júní 2015? Réði sannfæring ykkar því eða meðvirkni? Þverpólitísk samstaða = óábyrg afstaða! Ein af forsendunum var t.d. sú að lagabreytingin hefði ekki áhrif á ríkissjóð. Það er einfaldlega rangt og þú sem fjármálaráðherra þá Bjarni, hefðir betur kannað það. Önnur forsenda var að lagasetningin hefði aðeins áhrif á veiðifélög. Það er firra. Spyrjið Samtök ferðaþjónustunnar! Við hjón höfum og liðið fyrir þetta fjárhagslega og félagslega.

Í nafni upplýsingar, gegnsæis og réttlætis höfum við sett upp heimasíðu www.sveitasaga.com þar sem sagan öll er sögð og farið er ofan í fyrirliggjandi gögn og þau birt. Þar afhjúpast að kerfisræði, þjónkun og þekkingarskortur réði ferðinni í stjórnsýslunni og við lagasetninguna.

Hvað er til ráða ef Alþingi setur ólög?

Sjá einnig heildstætt efnisyfirlit

... sem teygir anga sína um refilsstigu réttlætisins,

til bakherbergja stjórnsýslunnar og afkima Alþingis.

bottom of page