top of page

Með lögum skal land byggja?

Við hjón, Steinar Berg Ísleifsson og Ingibjörg Pálsdóttir, ábúendur í Fossatúni í Borgarfirði, áttum aldrei von á því að líf okkar myndi umturnast vegna laga um lax- og silungsveiði, þó við flyttumst upp í sveit, enda eru lög um lax- og silungsveiði eitthvað sem enginn nema sérfræðingar eða sérvitringar huga að.

Áður en við fluttumst í Borgarfjörð áttum við og rákum Steina hf., innflutnings-, útgáfu- og smásölufyrirtæki í tónlist sem notaði landsþekkt slagorð: „Með lögum skal land byggja.“ Aldrei hefði okkur dottið í hug að við þyrftum að upplifa með öfugsnúnum hætti heilræðið sem í slagorðinu felst. Við fórum í mál við granna okkar og félaga í Veiðifélagi Grímsár og Tunguár, erfiða píslagöngu, en unnum að lokum sigur í Hæstarétti þar sem tekið var undir málstað okkar og rökstuðning.

Rúmu ári eftir dóm Hæstaréttar breytti Alþingi Íslendinga, hratt og hljótt, lögunum til þess að gera hinum dæmda kleift að stunda áfram þá starfssemi sem honum var meinað að stunda og gerður afturreka með af Hæstarétti. Lítil sem engin umfjöllun var um þessa lagabreytingu, hvorki innan veggja Alþingis né heldur utan. Skilja má áhugaleysi fjölmiðla, þar sem enginn æsingur fylgdi breytingunni heldur almennt áhuga- og þekkingarleysi þingmanna og svokallað „þverpólitískt samþykki“.

Frá fyrsta áfanga uppbyggingarinnar í Fossatúni árið 2003 þegar veitinga-staðurinn var settur upp.

Eðlilegt hefði samt verið að ræða málin innan veiðifélaga og landssambands þeirra sem eru hagsmunaaðilar málsins. Engin umræða var innan okkar veiðifélags, þ.e. Veiðifélags Grímsár og Tunguár, sem alla jafnan hefur lagt sig fram við að upplýsa félagsmenn um hinar smæstu breytingar í umhverfi félagsins. Þögnin hefur einkennt samskipti um þetta mál. Lagabreytingin eftir dóminn var gerð með vitund og vilja stjórnar veiðifélagsins. Við ábúendur í Fossatúni vorum væntanlega einu félagsmennirnir sem vissum ekki að það stóð til að setja lög á okkur.

Þetta litla einfalda mál sem óx í meðförum og við nánari skoðun - varð allt í einu flókið. Við höfum upplifað að fólk þarf að hugsa og hafa fyrir því að setja sig inn í kjarna málsins, sem er: að skylda fólk til að vera í félagi sem getur unnið á móti hagsmunum þess. Eftir lagabreytinguna er skylduaðildin á fölskum forsendum því félag um almenna sameiginlega hagsmuni er gert að atvinnurekstrarfélagi, skv. skilgreiningu Landsambands veiðifélaga. Með því að segja reynslusögu okkar, rekja feril málsins og kafa ofan í fyrirliggjandi gögn, viljum við varpa ljósi á þau vinnubrögð og tregðulögmál sem einkenna stjórnsýsluna þegar almennur borgari gagnrýnir og leitar eftir úrlausn og eðlilegum samskiptum við stjórnvöld.

Ný mynd (2018) frá Fossatúni.

Sjá einnig heildstætt efnisyfirlit

... sem teygir anga sína um refilsstigu réttlætisins,

til bakherbergja stjórnsýslunnar og afkima Alþingis.

bottom of page