top of page

Kvabb eða tvískinnungur?

Í umfjöllun um framgöngu Samherja í Namibíu kemur eftirfarandi fram:
 

Þjóðþing Namibíu samþykkti lagabreytingu eftir að dómsniðurstaða Hæstaréttar landsins gerði kvótaúthlutun sjávarútvegsráðherra ólöglega. Í samráði við Samherja vatt sjávarútvegsráðherra landsins sér þá í að breyta lögunum og afmá gildi hæstaréttardómsins. Breytingin var augljóslega í þágu sérhagsmunaaðilans og Samherji kom þannig með beinum hætti að undirbúningi lagasetningarinnar. Þjóðþing Namibíu samþykkti lagabreytinguna án þess að gera sér grein fyrir afleiðingum.

mutur.jpg
HaukurA_UmAlthingi_minni.jpg

Um Alþingi - Hver kennir kennaranum 

eftir Dr. Hauk Arnþórsson

Í nýútkominni bók, Um Alþingi - Hver kennir kennaranum, eftir Dr. Hauk Arnþórsson eru sett fram ábendingar um galla á málsmeðferð Alþingis. Talin eru upp 7 atriði (bls. 49-50) sem hugsanlega valdi því að lög öðlist ekki lagagildi. Efst á lista yfir það sem að mati höfundar þyrfti að rannsaka er:
 

„Hafi úrskurðir, dómar eða niðurstöður annara valdþátta ríkisins verið teknar til baka með nýjum lögum.“
 

Við, ábúendur í Fossatúni í Borgarfirði, unnum mál í Hæstarétti gegn Veiðifélagi Grímsár og Tunguár. Eftir dóminn var veiðifélaginu ekki heimilt að leigja út veiðihús til samkeppnisrekstrar utan laxveiðitímabilsins. Í samráði við Landssamband veiðifélaga vatt Sigurður Ingi Guðmundsson, þáverandi landbúnaðaráðherra, sér í að láta gera lagabreytiningu á Lax- og silungsveiðilögum til að ógilda niðurstöðu Hæstaréttar. Þjóðþing Íslendinga lét sérhagsmunaaðilann og embættismenn ráðuneytisins algjörlega segja sér fyrir verkum og samþykkti lögin blint og án breytinga eða efnislegrar umræðu.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur m.a. það hlutverk að gæta þess að lagasetning stangist ekki á við ákvæði íslensku stjórnarskrárinnar. Í stjórnarskránni er kveðið á um félagafrelsi. Komi til að einstaklingar séu skyldaðir til að vera í félagi, öndvert við félagafrelsið, útheimtir það almannahagsmuni og ströng skilyrði.
 

Eftir lagabreytingu Alþingis á Lax- og silungsveiðilögunum eru veiðfélög orðin að atvinnurekstarfélögum, skv. lýsingu höfundar laganna. Hafa það hlutverk að standa í eignaumsýslu, markaðslegri samkeppni og hámarka arðsemi aðildarfélaga. Upphaflegur tilgangur með stofnun veiðifélaga var að eigendur sameiginlegs
fiskisvæðis stæðu saman að verndun fiskistofna og skiptu með sér arði af sölu veiðileyfa.


Við ábúendur í Fossatúni vissum ekki af umræddri lagabreytingu fyrr en ári eftir að henni var laumað í gegnum Alþingi. Höfum síðan skrifað fjórum síðustu formönnum stjórnskipunar- og eftirlistnefndar Alþingis og óskað eftir fundi. Bent á að ekki hafi verið kannað við lagasetninguna hvort skylduaðlild að atvinnurekstrarfélagi standist ákvæði stjórnarskráinnar um félagafrelsi. Við höfum ekki verið virt svars.


Í umfjöllun um Samherjamálið hefur Helga Vala Helgadóttir tjáð sig um aðgerðir Samherja í Namibíu og brot á mannréttindum þar. Helga Vala var formaður stjórnskipunar- og eftirlistsnefndar Alþingis í tvö tímabil en lét af nefndarstörfum í september s.l. Ég skrifaði henni í maí 2018. Tjáði mig um að við gömlu hjónin í Fossatúni teldum að þau mannréttindi sem félagsfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar á að tryggja hafi hugsanlega verið brotin í meðferð Alþingis. Óskaði eftir fundi með henni og nefndinni.

 

Þó mannréttindahugsun Helgu Völu nái suður til Namibíu, þá nær hún víst ekki upp í Borgarfjörð. Henni fannst engin ástæða til að svara okkur.


Helga Vala Helgadóttir var þar með algjörlega sammála Brynjari Nílessyni, formanni nefndarinnar á undan henni. Þögn var líka svarið hans. Brynjar segist vera talsmaður einstaklingsfrelsis en í hans huga þarf slíkt frelsi að vera einkavinavætt til að hafa gildi. Við hjón í Fossatúni erum utan stjórnmálaflokka og Frammarar en ekki Valsarar. Hvað vill svoleiðis fólk upp á dekk?


Núverandi formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar er Þórhildur Sunna Ævarsdóttir. Hún hefur tjáð sig um Samherjamálið og furðað sig á því að heilt þjóðþing í Namibíu hafi látið hafa sig út í að samþykkja lög sem útbúin voru af sérhagsmunaaðila til maka eigin krók. Þá hefur Þórhildur Sunna oftsinnis haldið fram mikilvægi beinnar aðkomu einstaklinga að opinni og upplýstri umræðu til að tryggja betra siðferði. Ekki síst á Alþingi.
 

Það var með vonarglætu í hjarta að ég skrifaði Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur í september s.l. og óskaði eftir fundi með henni og nefndinni sem hún var nýtekin við formennsku í. Benti henni á að þjóðþing Íslendinga hafi samþykkt vafasöm lög skrifuð af sérhagsmunaaðila til ógildingar á dómsniðurstöðu Hæstaréttar Íslands. En Þórhildur Sunna virðist hafa miku meiri áhuga á gallaðri málsmeðferð og siðferði þingsins í Namibíu en á Íslandi. Vafalaust þess vegna hefur hún ekkert verið að hafa fyrir því að sýna sjálfsagða kurteisi og svara.


Spurning hvort svona kvabb sé svaravert? Eða hvort tvískinnungur sé skilyrði fyrir formennsku í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis?

Sjá einnig heildstætt efnisyfirlit

... sem teygir anga sína um refilsstigu réttlætisins,

til bakherbergja stjórnsýslunnar og afkima Alþingis.

bottom of page