top of page

Samskipti við Alþingi og ráðuneyti

Þegar við ábúendur uppgötvuðum að búið var að breyta lögum í mars 2016, þá skrifaði Steinar blaðagrein í Morgunblaðið og sendi í framhaldi öllum þingflokksfor-mönnum greinina og spurði þá hvort möguleiki væri á að taka málið upp aftur og endurmeta. Enginn hafði fyrir því að svara efnislega.

Eftir að hafa leitað fyrir okkur ákváðum við að gera athugasemdir við að lagasetningu nr. 50/2015 í tvígang til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.

Fyrst með bréfi, dags. 18. apríl 2016. Lokasvar barst frá formanni nefndarinnar, þ.e. Ögmundi Jónassyni, dags. 19. október 2016, þar sem kemur fram að nefndin telji það ekki falla undir starfssvið sitt að fjalla um efnislegt álit á undirbúningi lagasetninga. Við vorum ósammála, fannst þetta vera einhverskonar tæknilegur útúrsnúningur þar 

sem efnisatriði erindisins snéru fyrst og fremst að ferli lagasetningarinnar hjá Alþingi. Nefndin ákvað að áframsenda erindið til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti til upplýsingar.

Í framhaldinu óskuðum við bréflega eftir svörum frá ráðuneytinu um tilkomu og forsendur lagasetningarinnar. Svar barst, dags. 30. nóvember 2016, þar sem fram kemur að ráðuneytið telji að í frumvarpinu til laga sem ráðuneytið vann: „er gerð grein fyrir aðdraganda og ástæðum þess að frumvarpið var lagt fyrir Alþingi.

Einnig: „Að hálfu ráðuneytisins skal upplýst að eins og mál þetta liggur fyrir þykir ekki unnt að fjalla frekar um álitaefni sem koma fram í áðurnefndu tölvubréfi yðar eða leggja mat á þær aðstæður sem þar eru tilgreindar.

 

Með öðrum orðum: Stattu úti vinur, ekki vaða inn á okkur á skítugum skónum!

Eftir umhugsun og ráðleggingar ákváðum við að skrifa stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd aftur og takmarka erindið efnislega við vinnubrögð við lagasetninguna hjá Alþingi og óska eftir fundi til þess að fara málefnalega yfir helstu rök. Þetta bréf var sent hinn 20. mars 2017 og stílað á þáverandi formann, Brynjar Níelsson, og dreift til annars nefndarfólks af ritara nefndarinnar.

Einnig ákváðum við að leita eftir fundi með nýjum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og glöddumst þegar Steinari var boðið til fundar við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttir. Steinar mætti á tilskyldum tíma og það kom strax á óvart að ráðherrann hafði ekki hugmynd um hvert erindið var, þó gögn hafi verið send um málið með fundarbeiðninni. Þannig fór hinn skammtaði hálftími allur í að segja frá tildrögum málsins frekar en ræða aðkomu ráðuneytisins að því.

 

Fundinn sátu einnig aðstoðarmaður ráðherrans, Guðmundur Kristján Jónsson og tveir þeirra starfsmanna, Sigríður Norðmann og Jóhann Guðmundsson, sem unnu frumvarpsdrögin fyrir ráðuneytið.

Á fundinum spurði Steinar hver munurinn væri á honum og Óðni Sigurþórssyni, sem einnig fékk fund út af efnislega sama máli og var síðan ráðinn til þess að gera breytingar til samræmis við hugmyndir sínar?

Það rumdi í starfsmönnunum tveim og þeir sögðu að nú væri dómstóla að skera úr um lögin.

En var það ekki einmitt það sem Hæstiréttur hafði gert og voru lögin nokkuð annað en mannanna verk sem hlyti að mega endurskoða ef þau voru gerð á illa könnuðum eða röngum forsendum? 

Ráðherra sagði að það yrði erfitt, án þess að útskýra nánar, en þó kæmi á óvart að áhrifin á tekjur ríkisins skyldu ekki hafa verið kannaðar. Hún sagðist myndi tala við fjármálaráðherra um það og hún yrði svo í sambandi út af erindi fundarins.

Bréfið sem SAF höfðu sent henni tveim mánuðum áður barst í tal. Þar var, eins og að framan greinir, bent á galla í lagasetningunni og farið fram á fund með ráðherra. Ráðherrann leit á starfsmennina tvo spurnaraugum. Það kom svo í ljós að hún hafði hvorki fengið að sjá bréfið né svarið sem starfmennirnir tveir rituðu undir, þar sem málaleitan SAF var hafnað.

Skemmst er frá því að segja að ekkert svar eða tilraun til samskipta barst frá Þorgerði Katrínu. Reynt var nokkrum sinnum að ná sambandi við aðstoðarmanninn sem setið hafði fundinn en hann var afar upptekinn og lét ekki ná í sig.

Hvorki barst svar frá Brynjari Níelssyni, meðan hann var formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar við bréfinu frá því í mars um beiðni um fund, né heldur sýndu nefndarmenn málinu áhuga eftir að þeim barst erindið.

Sjá einnig heildstætt efnisyfirlit

... sem teygir anga sína um refilsstigu réttlætisins,

til bakherbergja stjórnsýslunnar og afkima Alþingis.

bottom of page