top of page

Málið hjá Alþingi:

Lög um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði, nr. 61/2006, með

síðari breytingum (meðferð og ráðstöfun eigna veiðifélaga).

 

1. gr. Á eftir d-lið 1. mgr. 37. gr. laganna kemur nýr stafliður, svohljóðandi: að nýta

eignir veiðifélags og ráðstafa þeim með sem arðbærustum hætti fyrir félagsmenn; heimilt

er veiðifélagi að ráðstafa eign félagsins utan veiðitíma og þá til skyldrar starfsemi.

 

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 30. júní 2015.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, varaformaður atvinnuveganefndar, mælti fyrir málinu þegar lagabreytingin var lögð fyrir Alþingi á síðasta degi þingsins. Hún segir m.a.:

 

„Tilefni frumvarpsins er dómur Hæstaréttar í máli nr. 676/2013 frá 13. mars 2014, þar sem reyndi á reglur um heimildir veiðifélags til að fara með og ráðstafa eigum þess.

Síðan les hún upp úr dómnum og segir um niðurstöðuna:

 

„[B]eitti Hæstiréttur almennum reglum um sérstaka sameign enda eru ekki ákvæði um meðferð og ráðstöfun eigna veiðifélags í lögum um lax‐ og silungsveiði.

 

Það liggja einfaldlega engin rök fyrir því að Hæstiréttur hafi beitt lögum um sérstaka sameign vegna skorts á lagaheimildum. Þvert á móti færir Hæstiréttur greinagóð rök fyrir niðurstöðu sinni. Það kemur skýrlega fram í niðurstöðu Hæstaréttar að veiðifélag er ekki eignaraðili heldur félagsmenn í hlutfalli við arðskrá. Þess vegna eru eignir veiðifélags umfram annað sérstök sameign og svo verður áfram.

 

Eftir að hafa lesið upp forsendur skylduaðildar bætti Lilja Rafney við:

„Nefndin bendir þó á að í áðurnefndu dómsmáli var ekki ágreiningur um sjálfa skylduaðildina.


Þetta er röng fullyrðing. Skylduaðildin grundvallast á lögbundnu hlutverki veiðifélaga, þetta var kjarni málsóknar ábúenda í Fossatúni gegn Veiðifélagi Grímsár og Tunguár. Þessir þættir eru kyrfilega ofnir inn í dóm Hæstaréttar og blasir rökstuðningurinn við ef niðurstaðan er lesin.

 

Atkvæðagreiðslan fór þannig að JÁ, sögðu 46, 15 voru fjarverandi og tveir greiddu ekki atkvæði. Annar þeirra, Sigríður Á. Andersen fór í pontu og gerði grein fyrir atkvæði sínu:

„Virðulegi forseti. Ég vil síst standa í vegi fyrir því að veiðifélög eða önnur félög hér á landi hafi arð af starfsemi sinni. Ég er hins vegar ekki sannfærð um að þessi breyting á lögum um lax- og silungsveiði eins og hún er orðuð samræmist fyllilega sjónarmiðum um skylduaðild að veiðifélögum. Eins og hún er orðuð, segi ég, og ég nefni það að þarna er gert ráð fyrir að veiðifélögum sé heimilt að ráðstafa eignum til skyldrar starfsemi. Ég tel að það þurfi að vera hafið yfir allan vafa að ráðstöfun slíks sé í fullkomnu samræmi við 1. gr. laga um lax- og 

silungsveiði, þ.e. í samræmi við sjálfbæra nýtingu fiskstofna í ferskvatni.“

 

Svo mörg voru þau orð. Einu orðin sem féllu í umræðum og atkvæðagreiðslu um lögin, utan frummælanda.

 

Hvað skyldu þeir þingmenn hafa verið að hugsa sem greiddu Já-­atkvæðin? Eða pældu þeir nákvæmlega ekkert í hverju þeir voru að greiða atkvæði, heldur treystu algjörlega að hin þverpólitíska sátt sem atvinnuveganefnd náði hafi verið byggð á vandaðri málsmeðferð? Getur það verið að Alþingi sé að afgreiða lög, sem þingmenn hafa ekkert sett sig inn í, skilja jafnvel ekki? Getur það verið að Alþingi sé að afgreiða lög, sem þingmenn treysta á að séu rétt og standist, af því að embættismenn og „sérfræðingar“ úr ráðuneytum segja svo?

 

Er þá Alþingi orðið að afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdavaldið? Hringja engar viðvörunarbjöllur þegar þingheimur er beðinn um að þjóna hagsmunum öflugra sértækra félaga, sem kann að ganga þvert á stjórnarskrárvarinn rétt einstaklinga? Gafst enginn tími til þess að velta fyrir sér eðli og áhrifum þeirra breytinga sem alþingismenn samþykktu með atkvæði sínu?

 

Hvað ef: „skyldur rekstur“ þ.e. hótel-­ og veitingarekstur og eignaumsýsla til að ná hámörkun arðsemi telst vera nauðsynlegur þáttur í rekstri veiðifélaga, félli slíkt að stjórnarskrárbundnu hlutverki þeirra? Eða bryti slík útvíkkuð starfssemi í bága við félagsákvæði 74. gr. stjórnarskrár-innar af þeim ástæðum að þátttaka í almennum markaðs– og samkeppnisrekstri getur ekki verið forsenda skylduaðildar?

Sjá einnig heildstætt efnisyfirlit

... sem teygir anga sína um refilsstigu réttlætisins,

til bakherbergja stjórnsýslunnar og afkima Alþingis.

bottom of page