top of page
Steinar_Alþingi_gefur_fingurinn.jpg

Steinar Berg Ísleifsson

Skömmu eftir 23. afmælisdag minn var ég kominn með eigin rekstur og hef síðan, utan nokkurra missera, starfað á eigin vegum. Ef skugga hefur borið á er það oftast vegna afskipta og árekstra við yfirvaldið, ríkið. Aðilann sem á að leiðbeina einstaklingum og fyrirtækjum en er iðulega þvergirðingslegur og ósanngjarn. Oft í skjóli valds og lagasetn-ingar. Ég vonaðist eftir lygnari sjó, hvað þetta varðar, þegar við hjón fluttum upp í sveit til að skapa ný tækifæri á nýjum stað. Sú varð ekki raunin. Öðru nær!

Lög samkvæmt pöntun

Blessunarlega hef ég örsjaldan þurft að leita réttlætis fyrir dómstólum. Í fyrsta skipti vegna launasvika, í annað skipti vegna leynds galla á húseign og svo vegna augljóss galla sjálfmiðaðs fyrrum samstarfsmanns. Öll þessi mál dæmdust mér í hag. Fjórða skiptið var svo málaferli okkar hjóna í Fossatúni gegn Veiðifélagi Grímsár og Tunguár. Málið snerist um skylduaðild og samkeppnisrekstur utan veiðitíma. Það mál vannst líka með Hæstaréttardómi árið 2013. Þá kom til pólitískur klíkuskapur og ámælisverð vinnubrögð Alþingis sem breytti lögum í laumi til að reyna að ónýta Hæstaréttardóminn.

Í ferlinu sem fylgdi hef ég lært mikið um lög og lagasetningu. Oft ekki mjög traustvekjandi, vitneskjan sú. Hryggjarstykkið í því sem veiðifélagið notaði sér til varnar og síðar til að „leiðbeina“ Alþingi fólst t.d. í Álitsgerð Lagastofnunar Háskóla Íslands eftir þá Stefán Má Stefánsson og Eyvind G. Gunnarsson.


Fyrri hluti þess plaggs ítrekar lagaleg rök fyrir því að veiðifélögum beri að halda sig innan þess þrönga ramma sem markaður er með Lax- og silungsveiðilögunum svo og stjórnarskránni. Seinni hlutinn byggir hins vegar á mati höfunda á því sem ekki stendur í lögunum. Skoðum það helsta úr fyrri hlutanum:

Af þeirri lagasetningu sem gildir um veiðifélög má ráða að tilgangurinn sé fyrst og fremst tvíþættur; annars vegar að vernda fiskistofna og hins vegar að gæta hagsmuna félagsmanna varðandi skiptingu á veiði og arðs af henni.


Í ljósi þess að veiðifélög eru lögbundin félög sem byggjast á alveg sérstökum sjónarmiðum, sem m.a. eru áréttuð í tilgangsákvæði 1. gr. lax- og silungsveiðilaga, er varhugavert að fullyrða að veiðifélögum sé heimilt að sinna öðrum verkefnum en lögbundnum, jafnvel þótt allir félagsmenn séu því samþykkir.


Félagsmenn í veiðifélagi verða því ekki skyldaðir að lögum til þátttöku í verkefnum sem ekki eru í nánum efnislegum tengslum við hið lögbundna hlutverk veiðifélags.


Veiðifélög eru skylduaðildarsamtök um sérstaka sameign og eiga þar samstöðu með húsfélögum samkvæmt lögum nr. 26/1994 um fjöleignarhús.


Á bls. 13 er svo samantekt með niðurstöðu:


Sem dæmi um þetta má nefna að stjórn veiðifélags samþykkti að veiðihús mætti vera opið að vetrarlagi fyrir veitingarekstur og skemmtihald. Slíkt fengist væntanlega ekki staðist með hliðsjón af tilgangi veiðifélaga og ábyrgðarreglum.“


Svo fer gamanið að kárna og lagaleg rök eru yfirtekin af vangaveltum höfunda plaggsins. Stiklum á stóru í seinni hlutanum. Undirstrikanir eru greinarhöfundar:


Telja verði almennt að bygging og rekstur veiðihúsa tengist lögbundnu hlutverki veiðifélaga.


Bygging og rekstur veiðihúss er rökrétt þegar horft er til þess að veiðihús er nauðsynlegur þáttur í hagkvæmri nýtingu veiðiréttar á viðkomandi veiðisvæði.


Ætla megi að með veiðihúsi sé stefnt að því að hámarka arð af viðkomandi veiðisvæði og þannig hámarka arð af eigninni til hagsbóta fyrir alla veiðiréttareigendur.


Þar sem veiðihús verða eðli máls samkvæmt ekki nýtt af stangveiðimönnum nema hluta úr ári má almennt telja það eðlilegan þátt í nýtingu eignarinnar að hafa af henni arð utan veiðitíma.


Þrátt fyrir að í lögum hafi aldrei verið nákvæmlega útlistað með hvaða hætti veiðifélögum beri að sinna verkefnum sínum, t.d. hvort og að hvaða marki þeim sé leyfilegt að fjárfesta í mannvirkjum og tækjum, er þó engum vafa undirorpið að veiðifélög hafa töluvert svigrúm í þessum efnum, enda sé slíkt gert með hagsmuni félagsmanna að leiðarljósi.


Og á bls. 22 er aðalniðurstaðan:


Samkvæmt þessu er niðurstaða okkar sú að rekstur sem stundaður er í veiðihúsi utan lögbundins veiðitíma, t.d. hótel- og veitingarekstur, sé í nánum, efnislegum tengslum við lögbundið hlutverk veiðifélaga samkvæmt lax- og silungsveiðilögum.“


Niðurstaðan á bls. 22 er sem sagt í hrópandi mótsögn við niðurstöðuna á bls. 13!


Í atvinnugreinaflokkun Hagstofunnar, ÍSAT, eru veiðihús ekki til sem skilgreind rekstrareining í annars fjölþættri flóru fyrir veitinga- og gistirekstur. Það eru engin rök fyrir því að fullyrða að rekstur veitinga- og gistihúsa tengist lögbundnu hlutverki veiðifélaga eða sé nauðsynlegur og til hagsbóta fyrir aðildarfélaga. Þvert á móti er líklegra að slíkt sé taprekstur niðurgreiddur af sölu laxveiðileyfa og rýri arð. Almennur samkeppnisrekstur getur ekki átt heima í félagi með skylduaðild. Vilji aðildarfélagar stunda slíkan rekstur er þeim það frjálst - í sér félagi innan sömu reglna og aðrir þurfa að una.


Það eru engin lagaleg rök fyrir mótsagnakenndri niðurstöðu álitsgerðar Lagadeildar Háskóla Íslands sem gerð var fyrir og greidd af Landssambandi veiðifélaga, einungis órökstuddar vangaveltur. Álitsgerðin lá fyrir Hæstarétti við meðferð máls okkar hjóna og Hæstiréttur sniðgekk niðurstöðuna.


Kannski er það lýsandi fyrir „virðingu“ Alþingis; að það afgreiði lög athugasemdalaust til samræmis við pantaða niðurstöðu sérhagsmunaaðila sem dómstólar dæmdu í óhag – og sýni þannig bæði þeim sem vann málið og dómstólum puttann?

Næsta síða: Að segja sig úr félagi

Sjá einnig heildstætt efnisyfirlit

... sem teygir anga sína um refilsstigu réttlætisins,

til bakherbergja stjórnsýslunnar og afkima Alþingis.

bottom of page