top of page

2 tölvupóstar til formanns stjórnskipunar og eftirlitsnefndar Alþingis

Ég sendi þessa tvo pósta með beiðni um fund annars vegar 7. maí 2018 og hins vegar 20. september 2019. Fyrri póstinum var ekki svarað og ekkert svar hefur enn (4. nóv. 2019) borist við þeim síðari.

Uppfært: Haft var samband fyrir hönd Þórhildi Sunnu Ævardóttir 19. febrúar 2020 og sagt að málið hafi verið rætt hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem ekki gæti gert neitt, en mér bent á að fyrir þinginu lægi frumvarp um minnihlutavernd í lax- og silungsveiðilögunum og ég gæti þar skilað inn umsögn. Ég gerði það hér og hér. Þetta frumvarp var svo dregið til baka og nýtt samið en framhald þess máls er hér.

From: Steinar Berg <steinar@fossatun.is
Sent: mánudagur, 7. maí 2018 12:22 
To: helgavala@althingi.is 
Cc: 'Elín Valdís Þorsteinsdóttir' <elinvaldis@althingi.is>; kristelf@althingi.is; 'Sigurður Örn Hilmarsson' <sigurdur@rettur.is>; 'Sigríður Rut Júlíusdóttir' <rut@rettur.is> 

Subject: ósk um fund

Sæl Helga Vala.

Ég hef verið tvístígandi að bera undir þig erindi okkar ábúenda í Fossatúni. Hef þegar skifað béf til tveggja fyrrum formanna stjórnskipunnar- og eftirlitsnefndar Alþingis. Fyrst til Ögmundar Jónassonar, þann 18. apríl 2016, eða skömmu eftir að við uppgötvuðum að Alþingi hafði í raun sett lög á okkur. Síðan aftur 20. mars 2017, til Brynjars Níelssonar, eftir að hafa velkst með málið í tvö ár án þess að fá það samtal sem við föluðumst eftir. Ögmundur svaraði okkur með bréfi, 19. október 2016, en Brynjar svaraði ekki. Á þessum tíma hef ég nokkrum sinnum verið í sambandi við ritara nefndarinnar Elínu Valdísi Þorsteinsdóttir. Ég sendi því afrit af þessu bréfi til nefndarritara stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sem hafa upplýsingar um samskiptaferlið fram til þessa.


Ég hef tekið saman yfirlit og gögn sem finna má á heimasíðunni www.sveitasaga.com og auk þess sendi ég bæklingi, „Með lögum skal land byggja“, til allra alþingismanna í marsbyrjun. Þar er skilmerkilega farið yfir þetta mál. Enginn hefur mótmælt því sem þar kemur fram. Lagabreytingin sem um er að ræða var gerð vegna fullyrðingar þáverandi formanns Landssambands veiðimanna um að niðurstaða Hæstaréttar í máli 676/2013 sé til komin vegna lagalegrar óvissu. Það eru engin rök, álit eða úttekt sem styður þessa fullyrðingu hagsmunaðilans sem setti hana fram. Þvert á móti þá fékk atvinnuveganefnd umsögn frá Jörundi Gaukssyni, formanni veiðifélags Árnesinga, þar sem varað er við lagasetningunni.


Við teljum að forsendur lagasetningarinnar hafi verið rangar og meðferð atvinnuveganefndar verulega ábótavant. Samþykkt þingsins á lögunum grundvallast því alls ekki á upplýsingu - og afleiðingarnar eru víðtækari en þingheimi var gert að trúa. Má þar sérstaklega nefna að lagabreytingin „hlutafélagavæðir“ í raun veiðifélög. Gerir þau að „atvinnurekstarfélögum“, sem hafa hagsmuni af því að standa í eignaumsýslu og veitinga- og gistirekstri. Nauðsynlegt hefði verið að gaumgæfa hvort slík víkkun á hlutverki veiðfélaga uppfyllti þau skilyrði sem undantekning stjórnarskrárinnar um félagafrelsi byggir á. Atvinnuveganefnd ákvað sérstaklega að kanna það ekki.


Okkur, hjónum í Fossatúni, er að sjálfsögðu velkunnugt um að það er hlutverk dómsstóla að skera úr um lagaleg ágreiningsefni og líklega verðum við að leggja í annan galeiðuróður gagnvart veiðifélagi okkar. Engu að síður þá finnst okkur málefnalegt og í takt við tíðarandann að samskipti eigi sér stað á milli Alþingis og okkar. Alþingi ákvað að breyta lögum samkvæmt ósk hagsmunaaðila sem tapaði máli fyrir Hæstarétti. Við, sem unnum málið urðum því beinlínis fyrir barðinu á lagabreytingunni. Alþingi átti í nánum samskiptum við hagsmunaaðilann á ferli lagasetningarinnar. Okkar álit, hagsmunir, sem eru almennir hagsmunir, og uppsöfnuð þekking eftir áralöng málaferli á máli sem var talvert flóknara en það virtist í fyrstu, var hinsvegar sniðgengið. Við, grandalausir einstaklingar, upptekin í uppbyggingu, höfðum ekki ímyndunarafl til að láta okkur detta í hug að sú aðferðafræði sem viðhöfð var í þessu máli viðgengist hjá Alþingi. Tilheyrðum líklega þeim minnihluta sem bar virðingu fyrir löggjafanum.


Ósk okkar er að fá fund með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til að fá staðfest að eðlilega hafi verið staðið að umræddri lagabreytingu af hálfu Alþingis. Sé hinsvegar fyrirliggjandi mat, eftir slíkt samtal, að augljósir agnúar séu á ferlinu, jafnvel þannig að það sé löggjafanum til vansa, hvað er þá til ráða? Er réttlætanlegt að afnema lögin ef þau voru sett á illa ígrunduðum og/eða röngum forsendum?


Með kveðju,

Steinar Berg Ísleifsson
Work: +354 433 5800
Mobile: +354 893 9733
www.fossatun.is

From: Steinar Berg <steinar@fossatun.is>

Sent: föstudagur, 20. september 2019 15:54

To: thorhildursunna@althingi.is Cc: 'Auður Tinna Aðalbjarnardóttir' <audur@rettur.is>; 'Sigurður Örn Hilmarsson' <sigurdur@rettur.is>

Subject: Beiðni um fund

Sæl Þórhildur Sunna.

Ég hef samband við þig sem ferðaþjónustuaðili á Vesturlandi, í sambandi við lög Alþingis nr. 50/2015 um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði, nr. 61/2006, sem hafa leitt til dómsmáls sem rekið er um þessar mundir.


Ég hef haft samband við þrjá forvera þína sem formenn stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, þar sem ég tel að það hvernig var staðið að lagabreytingunni sumarið 2015 varði nefndina, en án árangurs hingað til.

 

Kjarni málsins er sá að eftir að veiðifélag nokkurt hafði tapað Hæstaréttarmáli nr. 676/2013 fór Landssamband veiðifélaga í þá vegferð að fá lögum um lax- og silungsveiði breytt, með hljóðlátum hætti og sem minnstri aðkomu annarra hagsmunaaðila, sem tókst með framangreindum breytingarlögum. Afleiðing þessa er sú að nú telja veiðifélög landsins sér heimilt að standa í almennum gisti- og veitingarekstri allt árið (þ.e. ekki bara á hefðbundnum veiðitíma) sem felur í sér þunga og niðurgreidda samkeppni við ferðaþjónustuaðila í héraði og hefur reynst gróðrarstía fyrir svarta atvinustarfssemi. Samkvæmt skilgreiningu Landssam-bands veiðifélaga eru þau nú atvinnurekstrarfélög. Þetta er sérstaklega erfitt mál í ljósi þess að sömu einstaklingar og reka ferðaþjónustuna, eign atvinnurekstur, hafa að óbreyttu skylduaðild að þessum veiðifélögum og neyðast þannig til að vera í samkeppni við sjálfa sig – þrátt fyrir félagafrelsisákvæði stjórnarskrárinnar og viðkomandi mannréttindasáttmála.

 

Ég væri virkilega þakklátur fyrir það ef þú myndir vera reiðubúin að hitta mig til að fara yfir þetta mál. Ég tel að þú sért rétta manneskjan til að taka það til skoðunar, með vísan til þekkingar þinnar á mannréttindalögum og grunngildis Pírata um gegnsæi í stjórnkerfinu. Ef þú vilt frekari upplýsingar um málið er hægt að nálgast þær á heimasíðu málsins www.sveitasaga.com.


Með kveðju,

Steinar Berg Ísleifsson
Work: +354 433 5800
Mobile: +354 893 9733
www.fossatun.is

Sjá einnig heildstætt efnisyfirlit

... sem teygir anga sína um refilsstigu réttlætisins,

til bakherbergja stjórnsýslunnar og afkima Alþingis.

bottom of page