top of page

Einhvurslags skítamix!

Eftir Steinar Berg

Einhvurslags grein í mbl.png

Ein helsta ástæða þess að skylduaðild að veiðifélögum var lögfest árið 1970 var ósamlyndi veiðiréttarhafa og ómarkviss nýting fiskistofna. Þetta kom m.a. fram í því að sumir sem áttu svæði neðst í ám netgirtu þær og skertu þannig fiskigengd á hrygningarsvæði og hlunnindarnýtingu annara. Gildandi lög um lax- og silungsveiði eru frá 2006 og markmið þeirra kveður skýrt á um veiðirétt í ferskvatni og skynsamlega, hagkvæma og sjálfbæra nýtingu fiskstofna.

Greinin birtist í Mbl. 25. mars 2021.

Lögunum var einnig ætlað að auka réttaröryggi aðildarfélaga í veiðifélögum en sú er ekki raunin. Orðræðan og túlkun laganna hefur þróast í þá átt að útvíkka og knýja fram áherslur, ákvarðanir og hagsmuni meirihluta. Jafnframt að blanda saman hagsmunum  leigutaka innan umgjarðar laganna. Færa áherslur í rekstri veiðifélaga fjær þeim gildum sem skylduaðildin og vernd eignaréttar aðildarfélaga hvílir á. Undirritaður hefur lent upp á kannt við lögin – sjá: www.sveitasaga.com.

Fyrir Alþingi liggur nú stjórnarfrumvarp til breytinga á lax- og silungsveiðilögunum.  Frumvarpið er sagt vera endurflutningur á frumvarpi sem ekki fór í gegn á síðasta þingi. Í raun er þetta samt nýtt frumvarp og hefði átt að fá kynningu og umræðu sem slíkt. Fyrra frumvarpið hafði minnihlutavernd að markmiði en aðaláhersla nýja frumvarpsins er að veita réttum minnihluta meirihluta á kostnað rangs meirihluta sem þá yrði minnihluti! Einhvurslags skítamix.

Kveikja frumvarpsins er ótti við að erlendur auðkýfingur geti í krafti eignar sinnar á laxveiðijörðum hérlendis náð meirihluta í veiðifélögum; ákveðið að friða ár og svipta aðra aðildarfélaga hlunnindum. Þessi ótti á ekki við nein rök að styðjast. Meirihlutaákvörðun um friðun ársvæðis er í andstöðu við lögboðið hlutverk veiðifélaga og skýrt brot á minnihluta-

Tröllafossar.png

Tröllafossar í Grímsá í landi Fossatúns. Mynd: Ruzene Bendova.

vernd aðildarfélaga. Ákvörðun um friðun heils ársvæðis er ekki hægt að taka með meirihluta atkvæða, heldur verður slík meiriháttar ákvörðun að vera samþykkt af öllum aðildarfélögum. Hinn duldi tilgangur frumvarpsins virðist vera að styrkja frekari meirihlutaræði með sérstökum hætti og tengingu við atkvæðavægi. Þetta er í samræmi við stefnu Landssambands veiðifélaga sem heldur því fram að veiðifélög séu atvinnurekstarfélög og hefur í umsögn til atvinnuveganefndar Alþingis varað við aukinni minnihlutavernd í veiðifélögum.

Þá hefur landssambandið lagt sig fram við að leggja fram tölur til að sýna fram á mikilvægi lax- og silungsveiða. Láta líta út að sölu- og markaðsmál ásamt hámörkun hagnaðar bæði veiðifélaga og leigutaka séu mikilvægar forsendur skylduaðildar. Slíkt er algjör firra.  Í frumvarpinu og áður í nefndaráliti atvinnuveganefndar er vísað til skýrslu sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands gerði fyrir Landssamband veiðifélaga árið 2018. Þar kemur fram að tekjur veiðifélaga  árið 2004 voru 961 mkr. en uxu í 2,800 mkr. árið 2017.  Höfðu þrefaldast að krónutölu. Tekjur leigutaka höfðu hins vegar tífaldast á sama tíma: voru 228 mkr. árið 2004 en uxu í 2.100 mkr. árið 2017. Annaðhvort er eitthvað athugunarvert við þessar samanburðartölur eða að þær sýna þróun þar sem uppgangi er misskipt milli veiðifélaga og leigutaka laxveiðiáa. Lög um lax- og silungsveiði hafa eitt skýrt aðalmarkmið; sjálfbærni. Verndun fiskistofna er forsenda góðrar afkomu veiðifélags en áhættufjárfesting eða áhætturekstur er það ekki. Sölu- og markaðsstarf leigutaka ársvæða er góð og gild samkeppnisstarfssemi en á sér engar forsendur í lagasetningu um lax- og silungsveiði.

Í frumvarpinu er einnig lagt til að friðun svæða verði eingöngu leyfð út frá veiðiréttarlegum forsendum. Þetta er þröngur, gamaldags hugsunarháttur. Þegar lög um skylduaðild voru sett 1970 var litið á veiðiréttindi sem einu auðlind ársvæðis. Aðgengi að óspilltri náttúru er hins vegar ein helsta auðlind samtímans. 

Hvað ef landeigandi vill ekki nýta veiðirétt sinn; friða sitt svæði og afsala sér arði af veiðum? Slík friðun stuðlar að markmiðum lax- og silungsveiðilaganna um sjálfbærni fyrir þá landeigendur sem vilja nýta veiðiréttinn. Það hlýtur að vera æskilegt og í takt við mannréttindalög og tíðaranda að landeigendur sem vilja nýta fasteign sína og náttúruauðlind á annan hátt en með veiðirétti séu ekki skyldaðir til að vera í veiðifélagi. Að skylduaðild að veiðifélögum taki aðeins til þeirra fasteignaeigenda sem ákveða að nýta veiðirétt sinn og verða veiðrétthafar. Skilja má gildandi lög þannig að þetta sé hægt en í framlögðu frumvarpi er reynt að girða fyrir það.

Tíma Alþingis er illa varið til hagsmunatengds bútasaums sem eykur flækjustig í lagasetningu og kemur í bakið seinna. Miklu nærtækara væri að uppfæra lögin um lax- og silungsveiði til nútímans og ganga úr skugga um að lagagreinar sem teygt hefur verið á séu í samræmi við markmið laganna. Að verkefni veiðifélaga séu skilgreind með tæmandi hætti og að minnihlutavernd sé virt. Veiðifélag er sérstakt skylduaðildarfélag  sem vegna þeirrar stöðu sinnar getur ekki og á ekki að takast á við önnur verkefni en þau sem skylduaðildina réttlæta.

Sjá einnig heildstætt efnisyfirlit

... sem teygir anga sína um refilsstigu réttlætisins,

til bakherbergja stjórnsýslunnar og afkima Alþingis.

bottom of page