top of page

Undirbúningur lagbreytingarinnar í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti: 

Eftir að dómur Hæstaréttar í máli 676/2013 féll í mars 2013 gekk Óðinn Sigurþórsson, þáverandi formaður Landssambands veiðifélaga á fund þáverandi sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra, Sigurðs Inga Jóhannssonar. Ráðherrann fól Óðni ásamt þremur starfsmönnum ráðuneytisins að vinna að lagabreytingunni.

 

Þegar frumvarpsdrögin eru skoðuð blasir við að efnisleg áhersla við gerð laganna einkenndist af einstrengingslegri nálgun og útilokun annarra og andstæðra sjónarmiða en þáverandi formanns Landssambands veiðifélaga. Markmiðið augljóst: að hinn dæmdi gæti óhindrað haldið áfram þeirri starfssemi sem Hæstiréttur hafði meinað með dómi sínum.

Skyldi það vera einsdæmi í stjórnsýslunni að hagsmunaaðila sé falið að stýra lagagerð til ógildingar nýgengnum dóm Hæstaréttar, sem hann taldi vera á móti hagsmunum sínum? Eða, að engin sjónarmið önnur en fulltrúa hins dæmda fái að komast að við undirbúning og vinnu frumvarps í ráðuneytinu? Hvað með aðkomu óháðra aðila, sérfræðinga, sem ekki höfðu haft aðkomu að málinu á fyrri stigum?

Og hvað með sjónarmið okkar ábúenda í Fossatúni og lögmanns okkar, Sigríðar Rutar Júlíusdóttur? Við höfðum jú, eytt fjórum árum í undirbúning og málarekstur og milljónum í kostnað vegna þessa máls, aflað okkur sérstakrar þekkingar á því og lögunum - á leið þessarar smávægilegu grannaerju sem svo reyndist vera stórt og klárt prinsippmál, sem fjölskipaður dómur Hæstiréttur komst að skýrri niðurstöðu í.

Ljóst er, að okkar mati, að undirbúningur allur hafi verið í hrópandi ósamræmi við þær grundvallarreglur sem fram koma, m.a. í Handbók um undirbúning og frágang lagafrumvarpa sem gefin var út af forsætisráðuneyti, þáverandi dóms-­ og kirkjumálaráðuneyti og skrifstofu Alþingis. Nægir hér að nefna kafla 4 í handbókinni, og sér í lagi kafla 4.3 um samráð við hagsmunaaðila og almenning. Ekki verður heldur annað séð en að undirbúningur lagasetningarinnar í ráðuneytinu, vinnubrögð ráðherra og starfsfólks ráðuneytisins, stangist á við gildi góðrar stjórnsýslu, t.d.:


„að öll störf ráðherra skulu fara fram í þágu almennings en sérhagsmunir stýri ekki málsmeðferð.

 

„að ákvarðanir byggi á bestu fáanlegum upplýsingum og faglegu mati embættismanna og annarra sérfróðra aðila.

 

„að stefnumótun og ákvarðanataka mótist af sanngirni og virðingu fyrir lögum.

Sjá einnig heildstætt efnisyfirlit

... sem teygir anga sína um refilsstigu réttlætisins,

til bakherbergja stjórnsýslunnar og afkima Alþingis.

bottom of page