top of page

Mannréttindi eru vesen.

Eftir Steinar Berg

Mannréttindi er vesen grein.png

Við hjón fluttumst í Fossatún með jákvæðni í farteskinu og einbeittan vilja til þess að láta gott af okkur leiða. Mislíkaði þegar veiðifélagið sem við erum skylduð til að vera í ákvað að standa að óeðlilegri samkeppni við uppbyggingarstarf okkar. Málið fékk ekki lausn innan félagsins en Hæstiréttur dæmdi okkur í vil. Í kjölfarið  héldum við ótrauð áfram uppbyggingu og fjárfestum í fasteignum og innréttingum að Fossatúni fyrir 98.881.104 kr. á árunum 2014-2016, fyrir utan markaðssetningu og vinnutíma okkar. Svo byrjaði ballið. Alþingi tók sig til og gerði lagabreytingu gagngert til að ógilda niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í máli okkar. Hægt er að kynna sér ferlið á: www.sveitasaga.com.

Greinin birtist í Mbl. 31. mars 2021.

Aðkoma Alþingis byggðist á órökréttri, gamaldags hugsun um að veiðihús sé húsakostur á landbúnaðarsvæði, að bændur þurfi að þjónusta veiðimenn og að eðlilegt sé að þeir geti náð sér í aukatekjur með því leigja húsakostinn út utan veiðitímans. Úrelt sjónarmið sem fellur ekki að að umhverfi og aðstæðum nútímans.

Afar takmarkaðir gistimöguleikar til sveita var meginástæða þess að upp úr miðri síðustu öld var húsnæði byggt til hóflegrar þjónustu við veiðimenn á veiðitíma. Samkvæmt orðabók er veiðihús; skýli. Aðstæður hafa gjörbreyst; gisti- og veitingamöguleikar á landsbyggðinni eru fjölbreyttir og fólk alvant að skipuleggja ferðir sínar og uppihald. App fyrir flest. Gistirekstur á landsbyggðinni er vandasamur og þegar best gefur eins og metárið 2018 var tap gisti-og veitingastaða á Vesturlandi 5,4% af veltu, samkvæmt úttekt KPMG.  Það er því villandi að láta að því liggja að hægt sé að skapa aukatekjur með því að stunda almennan rekstur utan veiðitímans. Miklu líklegra er að veitinga- og gistirekstri utan háanna fylgi viðbótarfjárfesting og rekstrarlegt tap fyrir veiðifélög.

Bændur þurfa ekki lengur að fjárfesta í aðstöðu til þess að þjónusta veiðimenn,  slíkt er  valkostur en ekki nauðsyn. Veiðihús er ekki til sem sérstök rekstrareining hjá Ísat (Íslenskri atvinnuflokkun). Veiðifélög eru eins og húsfélög fyrir fjölbýlishúsi, vettvangur þröngt skilgreindra sameiginlegra hagsmuna. Húsfélagið á ekki fjölbýlishúsið heldur fer hver íbúðareigandi með sinn eignarrétt, hlutdeild í heildinni og minnihluta-vernd er virk. Veiðifélög eiga ekki veiðihús, heldur landeigendur ársvæðis í hlutfalli arðskrár.

Steinar með lax í Kjós.jpg
Steinar%2520me%25C3%25B0%2520lax%2520%25

Höfundur stundaði laxveiði sér til gamans áður en hann komst upp á kant við lax- og silungsveiði-lögin. Sjö punda úr Laxá í Kjós á efri mynd og 15 punda úr Flekkudalsá á þeirri neðri.

Áður fyrr gátu veiðifélög reist húsakost á landbúnaðarsvæði og haft þar uppi þjónustu við veiðimenn án rekstrarleyfis. Ekki er annað að skilja á vinnubrögðum Alþingis en að þingmenn haldi að þetta sé enn staðan. Veiðihúsið „okkar“ við Grímsá, ásamt flestum veiðihúsum landsins,

uppfyllir ekki lagakröfur um rekstrarleyfi. Samkeppnisumhverfið er óeðlilegt.

Um útgáfu rekstrarleyfa um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald gilda lög nr. 85/2007, ásamt breytingum síðar. Ætli veiðifélög sér að standa að slíkum rekstri verður að sækja um rekstrarleyfi á grundvelli laganna. Innifaldar eru margvíslegar kvaðir og ekki síst sú að reksturinn sé staðsettur á þar til greindu, deiliskipulögðu verslunar- og þjónustusvæði, sem er hluti af aðalskipulagi viðkomandi sveitarfélags. Þetta þýðir að veiðifélög sem standa að veitinga- og gistirekstri eiga að gera það á sömu forsendum og með samskonar rekstrarleyfi og aðrir sem slíkan rekstur stunda. Vegna meðhöndlunar Alþingis og sveitarfélaga er sú samt ekki raunin. Vilji veiðifélög standa að heilsárs samkeppnisrekstri í veitinga- og gistiþjónustu á grundvelli laga um rekstrarleyfi er eðlilegast að slíkt sé háð valkvæðri þátttöku félagsmanna  og rekstrarlegum aðskilnaði frá forsendum skylduaðildar þ.e. fiskrækt og sjálfbærni. Að skylda aðildarfélaga veiðifélaga til þátttöku í almennum samkeppnisrekstri samræmist ekki markmiðum lax- og silungsveiðilaganna.

Tengdafaðir minn heitinn sagði mér frá þegar hann var í sveit, sem strákur í Miðfirði. Allt sumarið var lax á borðum, nánast daglega. Heimilisfólk var búið að fá nóg af þessum annars ágæta mat og kvartaði hvort í annað um einsleitni kostsins. Þegar hundurinn á heimilinu heyrði hvískrað orðið lax, hljóp hann út og ældi. Það eru 20 ár síðan við keyptum Fossatún og 15 þeirra hafa snúist um vesen í kringum lax- og silungsveiðilögin. Þau yfirtekið tilveru okkar og skapað mikinn fjárhagslegan kostnað. Það skyldi engan undra að ég sé búinn að fá nóg af lax- og silungsveiðilögunum og löggjafa sem hlýðir áherslum hagsmunaaðila gagnrýnislaust. Útvíkkun á hlutverkum skylduaðildarfélags leiðir til þess að gengið er á einstaklingsbundin eignarréttindi og kippt burtu þeim stoðum sem eru forsendur skylduaðildar.

 

Mér sýnist búið að sovétvæða veiðifélög og samtök þeirra á Íslandi. Þau orðin miðstýrt, sjálfbært kommissaraveldi. Við Fossatúnshjón metum mikils þau mannréttindi sem Hæstiréttur kvað á um okkur til handa í dómi sínum. Löggjafinn brást við í taumi kommissara til að svipta okkur réttindunum. Við látum ekki segjast. Fólk með vesen. Ég hugsa til hundsins og segi eins og listaskáldið forðum: Afsakið meðan ég æli!

Sjá einnig heildstætt efnisyfirlit

... sem teygir anga sína um refilsstigu réttlætisins,

til bakherbergja stjórnsýslunnar og afkima Alþingis.

bottom of page