top of page

Nefndarálit atvinnuveganefndar

Í nefndaráliti atvinnuveganefndar er vitnað í hæstaréttardóminn og er eftirfarandi fullyrt:

 

„[B]eitti Hæstiréttur almennum reglum eignarréttar um sérstaka sameign enda eru ekki ákvæði um meðferð og ráðstöfun eigna veiðifélags í lögum um lax-­ og silungsveiði.”

“Það fellur undir hlutverk veiðifélags að eiga eignir og telur nefndin eðlilegt að veiðifélag geti einnig ráðstafað eignum svo fremi að slík ráðstöfun sé í samræmi við markmið laganna.”

 

Hér eru sem sagt endurteknar þær fullyrðingar sem formaður Landssambands veiðifélaga hafði í farteskinu þegar hann fór á fund ráðherra og fékk sjálfdæmi til að breyta lögunum. Atvinnuveganefnd Alþingis byggir á röngum forsendum: Í dómi Hæstaréttar kemur skýrlega fram að það sé ekki hlutverk veiðfélaga að eiga eignir, heldur eru eignirnar eign félagsmanna í hlutfalli við arðskrá. Þess vegna er um sérstaka sameign að ræða. Stæði vilji atvinnuveganefndar til þess að breyta lögunum þannig að veiðifélög fengju það hlutverk að standa í eignaumsýslu hefði verið nauðsynlegt að kanna vel áhrif slíkra breytinga.

 

Nefndinni var bent á þetta í umsögn sem Jörundur Gauksson, formaður veiðifélags Árnesinga setti fram:

 

“Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að frumvarpið hafi ekki þótt gefa tilefni til að skoðað yrði sérstaklega samræm i við stjórnarskrá. Stjórn Veiðifélags Árnesinga telur hins vegar fullt tilefni til þess að taka til sérstakrar athugunar hvort frumvarpið samræmist stjórnarskrá. Samkvæmt Hæstarétti verða viðfangsefni veiðifélaga ótvírætt að vera í nánu samhengi við tilgang laga um lax-­ og silungsveiði og þau markmið sem skylduaðildinni er ætlað að tryggja.

„Stjórn Veiðifélags Árnesinga telur brýnt að svara því áður en frumvarpið verður að lögum hvort gisti-­ og veitingarekstur utan veiðitíma, án samþykkis allra félagsmanna, samræmist því að skylda veiðiréttarhafa til að vera í veiðifélagi. Ekki má leika vafi á því að lagaákvæði sem felur í sér breytingar á tilgangi sérlaga um lax-­ og silungsveiði og hlutverki veiðifélaga uppfylli þau skilyrði sem undantekning stjórnarskrárinnar frá félagafrelsi byggir á.
 

„Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að lagabreytingin muni fyrst og fremst hafa áhrif á starfsemi veiðifélaga. Af þessu tilefni vekur stjórn Veiðifélags Árnesinga athygli atvinnuveganefndar á því að tilefni framangreindrar málshöfðunar var að félagsmaður í veiðifélagi vildi ekki una því án hans samþykkis að veiðifélag væri í samkeppni við hann í ferðaþjónustu utan veiðitíma. Verði frumvarpið að lögum verður veiðifélagi heimilt að vera í slíkri samkeppni við félagsmenn sína. Áhrifanna gætir því víðar en á rekstur veiðifélaga og þar af leiðandi þarf að gæta að því að frumvarpið samræmist stjórnarskránni. Kann að vera að Hæstiréttur sé þegar búinn að svara því.

 

Okkur hjónum var fyrst kunnugt um lagasetninguna tæpu ári eftir að hún átti sér stað og höfðum þá samband við Jón Gunnarsson, formann atvinnuveganefndar. Spurðum hann skriflega hvort möguleiki væri á því að hann og nefndin endurmæti afstöðu sína. Jón hafnaði því og svaraði:

 

„Sá ágreiningur sem þú vitnar til var til umfjöllunar í nefndinni við málsmeðferð hennar á þessu máli og við fengum m.a. Gauk Jörundsson (sic) á okkar fund. Eins og þú sérð á nefndaráliti okkar þá ritar öll nefndin undir þá niðurstöðu sem við komumst að. Það var m.ö.o. þverpólitískur stuðningur við þessa niðurstöðu.

 

Atvinnuveganefnd samþykkti frumvarpsdrögin óbreytt eins og þau komu úr ráðuneytinu. Sú afstaða virðist grundvölluð á fullyrðingu formanns Landsambands veiðifélaga og embættismanna um að Hæstiréttur hafi verið á hrakhólum með lagaheimildir og því komist að rangri niðurstöðu.

 

Atvinnuveganefnd ákvað að skoða hvorki samræmi lagabreytingarinnar við stjórnarskrá, né möguleg áhrif á tekjur ríkisjóðs, heldur ekki réttaröryggi félagsmanna veiðifélaga eða röskun á samkeppni sem gætu komið til vegna lagabreytingarinnar. Enginn áhugi var heldur fyrir því að kynna sér þau sjónarmið sem lágu til grundvallar málarekstri stefnanda/áfrýjenda í máli 676/2014 í Hæstarétti, sem var tilefni lagasetningarinnar.

Sjá einnig heildstætt efnisyfirlit

... sem teygir anga sína um refilsstigu réttlætisins,

til bakherbergja stjórnsýslunnar og afkima Alþingis.

bottom of page