top of page

Forsendur atvinnuveganefndar og markmið lagasetningarinnar:

Í athugasemdum frumvarpsdraganna og þingskjölum kemur fram að gengið hafi verið út frá eftirfarandi forsendum: „Með frumvarpi þessu er ráðin þar bót á og verði það að lögum mun það fyrst og fremst hafa áhrif á starfsemi veiðifélaga.”

 

Við ábúendur í Fossatúni fórum af illri nauðsyn í mál við veiðifélag okkar, Veiðifélag Grímsár og Tunguár, vegna þess að okkur fannst óeðlilegt að veiðifélagið stæði að samkeppnisrekstri við okkur. Við höfum metið fjárhagslegt tap vegna hinnar óeðlilegu samkeppni vera á bilinu 5 til 10 milljónir króna. Þá eru ótalin félagsleg áhrif, sniðganga, einangrun og illt umtal gagnvart okkur hjónum hjá „félögum“ okkar í veiðifélaginu. Þetta hefur valdið okkur miklu hugarangri.

 

Samkvæmt mati SAF leiðir lagasetningin til þess að almenn samkeppni í hótel- og veitingarekstri raskist vegna samkeppnislegs forskots sem veiðifélög öðlast vegna lagasetningarinnar. Þannig eru áhrif lagasetningarinnar mun víðtækari en gefið var í skyn í athugasemdum með lögunum og ekki aðeins mæld út frá efnahagslegum forsendum.

 

Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar. Frumvarpið þótti ekki gefa tilefni til að skoðað yrði sérstaklega samræmi við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.”


Eðli málsins samkvæmt má halda því fram að samræmi við stjórnarskrá sé lykilatriði þessarar lagabreytingar og var nefndarfólki atvinnuveganefndar bent á það sérstaklega, t.d. í umsögnum sem nefndin fékk. Engin rökstuðningur er fyrirliggjandi í þingskjölum sem styður þá ákvörðun að skoða ekki sérstaklega samræmi laganna við stjórnarskrá eða alþjóðlegar skuldbindingar.

 

„Kostnaður og tekjur: Hefur ekki áhrif á ríkissjóð.”

Það var fyrirliggjandi að Veiðifélag Grímsár og Tunguár hafði fengið á annan tug milljóna endurgreiddan sem innskatt á þeim árum sem Steinar var endurskoðandi veiðifélagsins, þ.e. árin 2004-­2009. Þetta kemur og fram í málsskjölum vegna meðferðar málsins í Hæstarétti sem voru nefndarfólki aðgengileg. Í athugasemdum til ráðherra, bréfi SAF til Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, hér á undan er farið yfir áhrif hins tvöfalda virðisaukaskattkerfis sem atvinnuveganefnd virðist ekki hafa áttað sig á og kann að leiða til verulegra endurgreiðslna innskatts til veiðifélaga.

 

„Markmið lagabreytingarinnar er: Að breyta og auka lítillega við núgildandi lög.”

 

Fullyrt er að um síðbúna lagabreytingu sé að ræða sem hefði komið í veg fyrir niðurstöðu Hæstaréttar frá 13. mars 2014 í máli 676/2013, hefði breytingin verið til staðar í lögunum. Engan rökstuðning fyrir þessari fullyrðingu er að finna í gögnum með lagabreytingunni eða í dómi Hæstaréttar.

 

Reynt er að fara framhjá niðurstöðu Hæstaréttar, með því að bæta inn í lögin ákvæði um að meirihluti félags-manna geti ákveðið að beita veiðifélaginu móti hagsmunum minnihluta og hlutafélagsvæða þannig veiðifélögin í raun til allrar ákvarðanatöku. Þátttaka í veiðifélagi byggir á skylduaðild vegna almennra hagsmuna en ekki sértækra. Hæstiréttur fjallar í dómi sínum ítarlega um takmarkanir sem fylgja skylduaðildinni.

 

Efnislega hlýtur lagabreytingin að flokkast sem meiriháttar en ekki minniháttar, þar sem hún lýtur að því að breyta tilgangi og markmiðum veiðifélaga. Því hefði verið eðlilegt að byggja á bestu fáanlegum upplýsingum og faglegu mati sérfróðra og óháðra aðila en reiða sig ekki eingöngu á álit hagsmunaaðila og embættismanna úr ráðuneytinu ... þeirra sömu og höfðu frumkvæði að lagasetningunni og unnu lögin.

Sjá einnig heildstætt efnisyfirlit

... sem teygir anga sína um refilsstigu réttlætisins,

til bakherbergja stjórnsýslunnar og afkima Alþingis.

bottom of page