top of page

Umfjöllun í atvinnuveganefnd Alþingis

Á tímabilinu 5. mars til 30. apríl 2015 hélt atvinnuveganefnd sex fundi um frumvarpið. Á þessum fundum voru eftirtaldir aðilar kallaðir til: Tvisvar sinnum: Arnór Snæbjörnsson, Jóhann Guðmundsson, Sigríður Norðmann frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og Óðinn Sigþórsson frá Landssambandi veiðifélaga. Einu sinni: Eyvindur Gunnarsson prófessor og Stefán Má Stefánsson prófessor við Háskóla Íslands og Jörundur Gauksson frá Veiðifélagi Árnesinga.

 

Sem sagt eingöngu kallað til fólk sem komið hafði að undirbúningi laganna eða álitsgerð sem greitt hafði verið fyrir af Landsambandi veiðifélaga, fyrir utan Jörund Gauksson, formann Veiðifélags Árnesinga, sem hafði áður og af eigin frumkvæði gert skriflega athugasemd við frumvarpið.

Atvinnuveganefnd sendi 17 aðilum umsagnabeiðnir. Tveir þeirra skiluðu umsögn innan tilskilinna tímamarka, þ.e. 9. mars 2015, en einni umsögn var skilað eftir að tímamörk runnu út. Veiðifélag Árnesinga, skilaði einnig umsögn innan tímamarka -­ en hafði ekki verið send umsagnabeiðni.

 

Landsamband veiðifélaga skilar inn umsögn sem undirrituð er af Óðni Sigurþórssyni. Jákvæðri umsögn um eigið verk. Nema hvað!

Umsögnin frá Veiðifélagi Árnesinga, varar við lagasetningunni. Formaðurinn var jafnframt kallaður á fund nefndarinnar, þar sem hann segist hafa kveðið mun sterkar að orði en hann gerir í sinni skriflegu umsögn og sagt nefndarmönnum hreint og klárt að hann teldi að lagabreytingin kippti

grundvellinum undan skylduaðild að veiðifélögum. Að skilgreina veiðifélög sem atvinnurekstarfélög sem hefðu það að markmiði að stuðla að samkeppnisrekstri og hámarka arðsemi félagsmanna, gengi í berhögg við undanþágu um félagafrelsi sem kveðið er á um í stjórnarskránni og er grundvöllur veiðifélaganna.

 

Umsögn ASÍ hvetur til að varlega verði stigið til jarðar í breytingum og þar segir m.a.: „... enda um sérstakt skylduaðildarfélag að ræða sem vegna þeirrar stöðu sinnar getur ekki og á ekki að takast á við önnur verkefni en þau sem skylduaðildina réttlæta.”

 

Umsögnin frá Lögmannafélagi Íslands er um margt sérstök og þar segir m.a.: „Má því ætla að frumvarpið dragi úr líkum þess að skylduaðildin verði talin andstæð 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar, standi yfirleitt líkur til þess.“

 

“Ennfremur að óhagræði staks félaga að veiðifélagi, sem vill standa í vegi fyrir fjárhagslegri nýtingu eigna félagsins, sé léttara á vogarskálum 2. mgr. 74. gr. en óhagræði hinna sem eru sviptir arði af eign sinni fyrir mótmæli eins skyldufélaga síns.”

 

Í þessari umsögn Lögmannafélags Íslands er lagarökum í raun snúið á hvolf með vafasömum vangaveltum um hvernig hugsanlega sé hægt að svipta einstaka aðildarfélaga því réttaröryggi sem er forsenda skylduaðildar og undanþágu frá félagafrelsi stjórnarskrárinnar.

 

Í samantekt um þingmálið stendur: „Umsagnir voru yfirleitt jákvæðar.“

 

Þessi fullyrðing stenst ekki skoðun. Aðeins ein umsögn var jákvæð og það var umsögnin frá Landsambandi veiðifélaga, hagsmunaaðilanum sem hafði frumkvæði að og stýrði lagagerðinni. Séu umsagnirnar lesnar blasir við niðurstaða sem frekar hefði átt að letja en hvetja til að lagasetningarinnar. Í öllu falli að skoða sérstaklega hvort lagasetningin samræmdist skylduaðildinni.

 

Umrædd lagabreyting fjallar í raun um að leyfa veiðifélögum, í skjóli skylduaðildar, að taka þátt í almennu samkeppnisumhverfi ferðaþjónustunnar. Nokkru eftir að lagasetningin hafði átti sér stað ákváðu Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) að senda nýjum sjávarútvegs‐ og landbúnaðarráðherra, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, umsögn sína bréflega, þann 3. febrúar 2017, og fara fram á endurmat lagasetningarinnar.

„Þá benda SAF á að með umræddri lagabreytingu var samkeppni með gistingu á markaði raskað með hliðsjón af greiðslu opinberra gjalda. Í því samhengi ítrekast að sala veiðileyfa er ekki virðisaukaskattsskyld, en skv. 8. tölulið 3. mgr. 2.gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50 1988, er fasteignaleiga undanþegin virðisaukaskatti en þar undir fellur endurgjald fyrir veiðirétt, hvort sem um er að ræða sölu lax- eða silungsveiðileyfa, enda sé það fast gjald, óháð veiðifeng. Fyrir umrædda breytingu þurftu veiðifélög því að greiða fullan innskatt af þeirri starfssemi sem tengdist rekstri veiðihúss og félagsins enda höfðu slík félög ekki útskatt til að draga hann frá. Hins vegar, þegar útleiga veiðihúsa var gerð að sérstakri rekstareiningu innan veiðifélaga, var tekin upp frjáls skráning til virðisaukaskatts, þó svo veiðileyfi væru eftir sem áður ekki virðisaukaskattsskyld. Þetta tvöfalda fyrirkomulag vegna virðisaukaskattsskráningar leiðir til þess að innskattur umfram útskatt kann eftir atvikum að vera verulegur þar sem tekjur vegna útleigu veiðihúsa eru einungis hluti rekstrarkostnaðar þeirra. SAF telja að slíkt tvöfalt fyrirkomulag gangi gegn tilgangi laga um virðisaukaskatt um að innheimta þann mismun sem myndast af innskatti og útskatti. Hið nýja fyrirkomulag gagnvart starfssemi veiðifélaga kann því að leiða til verulegrar endurgreiðslu virðisaukaskatts til veiðifélaga í beinni samkeppni við aðra gistiþjónustu sem ekki nýtur slíks skattalegs hagræðis. Lagabreytingin festir því í sessi fyrirkomulag sem getur einnig haft umtalsverð áhrif á tekjur ríkissjóðs taki veiðifélög upp slíkan tvískiptan rekstur hvað uppgjör á virðisaukaskatti varðar.

 

Atvinnuveganefnd sendi eins og áður sagði umsagnabeiðnir til 17 aðila, þ.á.m. til Landsvirkjunar, Matvælastofnunar, Náttúrufræðistofnunar, Bandalags háskólamanna, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og Bændasamtaka Íslands en engin beiðni um umsögn var send Samtökum ferðaþjónustunnar. Hvað skyldi hafa ráðið þeirri ákvörðun?

Í þessari síðbúnu umsögn SAF segir m.a.: „Að gefnu tilefni ítrekast að það er með öllu óljóst hvað felst í skyldri starfssemi og þá hvort almenn tilvísun til skyldrar starfssemi geti falið í sér annað og mun víðtækara hlutverk en veiðifélögunum er falið til að tryggja skynsamlega, hagkvæma og sjálfbæra nýtingu fiskstofna í ferskvatni og verndun þeirra. Vandséð er einnig hvernig útleiga á veiðihúsi, utan skilgreinds veiðitíma, í beinni samkeppni við almenna ferðaþjónustu, samræmist markmiði laganna skv. 1. gr. þeirra. Hvorki má ráða af umræddu ákvæði né heldur athugasemdum við ákvæðið að skynsamleg, hagkvæm og sjálfbær nýting fiskistofna taki til umsýslu eigna á forræði veiðifélaga. Að sama skapi afnema lög nr. 50/2015 ekki þá beinu tilvísun sem fram kemur í 1. mgr. 37 gr. laga um lax­‐ og silungsveiði um að veiðifélögum skuli vera markað hlutverk skv. 1 gr. laganna. Skylduaðild að veiðifélagi, og að sama skapi undantekning frá stjórnarskrávörðu félagafrelsi, getur því ekki falið í sér þátttöku í starfssemi sem hefur í þessu tilviki annað og meira hlutverk en það sem kemur fram í markmiðsákvæðum umræddra laga og skylduaðild er ætlað að tryggja.

Sjá einnig heildstætt efnisyfirlit

... sem teygir anga sína um refilsstigu réttlætisins,

til bakherbergja stjórnsýslunnar og afkima Alþingis.

bottom of page