top of page

Dómur Hæstaréttar

Hér að neðan er stiklað á stóru yfir dóm Hæstaréttar. Í dómnum sátu fimm dómarar, þ.e. Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson ásamt Árna Kolbeinssyni fyrrverandi Hæstaréttardómara. Vel studdar röksemdir eru taldar til fyrir réttarstöðu, eignarstöðu, skylduaðild, takmörkum starfssemi, og réttaröryggi aðildarfélaga. Varla verður annað sagt en að dómurinn sé skýr og ígrundaður og niðurstaðan rökrétt:

„Er málatilbúnaður áfrýjenda í aðalatriðum á því reistur að leiga veiðihússins til almenns gisti-­ og veitingarekstrar utan skilgreinds veiðitíma samrýmist ekki lögboðnu hlutverki veiðifélagsins, sbr. síðari málslið 1. mgr. 37. gr. laga nr. 61/2006. Jafnframt verður að skilja málatilbúnað áfrýjenda svo að þau telji að meirihluti félagsmanna í veiðifélaginu geti ekki í andstöðu við minnihlutann tekið slíka ákvörðun um ráðstöfun veiðihússins heldur þurfi samþykki allra félagsmanna til að koma. Eins og málatilbúnaði áfrýjenda er háttað ræðst úrlausn framangreinds ágreinings af því hver sé að lögum staða stefnda, Veiðifélags Grímsár og Tunguár, og eignarréttarleg staða í skiptum þess og félagsmanna.“

 

“Í lögum nr. 61/2006 er réttarstaða veiðifélaga ekki skilgreind með skýrum hætti. Þó er tekið fram í 6. mgr. 37. gr. laganna að sjálfstæðar eignir veiðifélags tilheyri þeim fasteignum á félagssvæðinu sem veiðirétt eiga og í arðskrárhlutfalli. Var þetta skýrt svo í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 61/2006 að með þessu væri áréttuð sú eignarréttarstaða í skiptum veiðifélags og félagsmanna að félagið sjálft væri ekki handhafi neins konar eignarréttarheimilda heldur teldust sjálfstæðar eignir félags tilheyra ein-stökum félagsmönnum og veiðiréttarhöfum í samræmi við hlutdeild þeirra í félaginu á grundvelli arðskrár.”

 

„Þótt réttarstaða veiðifélaga sé ekki skilgreind berum orðum í lögum nr. 61/2006 er af framansögðu ljóst að skipan mála innan þeirra og í skiptum út á við er með sama hætti og þegar eignarréttindi að tilteknu verðmæti eru í sérstakri sameign.“

 

“Til grundvallar því að skylduaðild að félagi geti verið nauðsynleg vegna réttinda annarra liggja meðal annars þau rök að við ákveðnar aðstæður geti tengsl á milli manna verið svo náin að nauðsynlegt þyki að leggja þá skyldu á þá að virða hagsmuni hvor eða hver annars með því að standa að sameiginlegu félagi í því skyni.

Þá var í tengslum við umfjöllun um og rökstuðning fyrir skylduaðild að veiðifélögum tekið fram í frumvarpinu að ætlunin væri að auka enn frekar en áður hafi verið réttaröryggi einstakra félagsmanna í veiðifélögum.”

 

„Í þeirri reglu 1. mgr. 37. gr. laga nr. 61/2006 að mönnum sé skylt að eiga aðild að veiðifélagi felst undantekning frá þeirri meginreglu fyrri málsliðar 2. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar að engan megi skylda til aðildar að félagi. Jafnframt er fólgin í þessari skipan takmörkun á eignarráðum fasteignareiganda hvað eignarrétt að veiði varðar. Af þessu leiðir að viðfangsefni veiðifélaga takmarkast á hverjum tíma af þeim verkefnum sem löggjafinn gagngert felur þeim og ótvírætt þarf að vera að þau séu í nánu samhengi við tilgang laganna og þau markmið sem skylduaðildinni er ætlað að tryggja. Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 61/2006 kemur fram að tilvist veiðifélaga og skylduaðild að þeim er ætlað að tryggja að markmiðum laganna samkvæmt 1. gr. verði náð, en markmið laganna samkvæmt þeirri grein er að kveða á um veiðirétt í ferskvatni og skynsamlega, hagkvæma og sjálfbæra nýtingu fiskistofna þar og verndun þeirra.”

 

„Ákvörðun um gisti­‐ og veitingarekstur í veiðihúsi, sem reist hefur verið, á skilgreindum veiðitíma samkvæmt lögum nr. 61/2006 fellur tvímælalaust innan þeirra marka sem lög setja starfsemi veiðifélaga, sbr. c. og d. liði 1. mgr. 37. gr. laganna. Við töku ákvörðunar um slík málefni gildir sú regla 8. mgr. 40. gr. þeirra að afl atkvæða ræður ef ekki er á annan veg mælt í lögum eða samþykktum veiðifélags. Á hinn bóginn er ákvörðun veiðifélags um að selja öðrum veiðihús á leigu til almenns gisti­‐ og veitingarekstrar í veiðihúsi utan skilgreinds veiðitíma meiriháttar ákvörðun í skilningi óskráðra reglna eignarréttarins um sérstaka sameign og gildir þá einu hvort hún telst venjuleg eða óvenjuleg. Af þessu leiðir að til slíkrar ákvörðunar þarf samkvæmt þeim reglum samþykki allra félagsmanna.” 

Dómsorð:

 

“Viðurkennt er að stefnda Veiðifélagi Grímsár og Tunguár er óheimilt án samþykkis allra félagsmanna að selja veiðihúsið að Fossási í Borgarbyggð á leigu til almenns gisti-­ og veitingarekstrar utan skilgreinds veiðitíma samkvæmt lögum nr. 61/2006 um lax­‐ og silungsveiði.”

 

Það er órökstutt að niðurstaða Hæstaréttar sé afleiðing skorts á lagaheimildum. Málið er einfaldlega flóknara en svo, því þau atriði sem Hæstiréttur telur upp til stuðnings niðurstöðu sinni halda áfram gildi sínu, þrátt fyrir lagabreytinguna. Það verður að gefa rökstuddum niðurstöðum Hæstaréttar miklu meira vægi en skoðunum fólks eða fagaðila sem geta verið mismunandi á álitaefnum.

 

Lagabreytingin sem gerð var í kjölfar Hæstaréttardómsins er eðlisbreyting á veiðfélögum, breytir þeim í atvinnurekstarfélög. Lagabreytingin kann að brjóta í bága við félagafrelsisákvæði 74. gr. stjórnarskrár og þegar af þeim ástæðum sé veiðifélaginu slík starfsemi óheimil. Rétt er að minna á að lágmarksréttindi sem vernduð eru af ákvæðum stjórnarskrár verða ekki afnumin með breytingum á almennum lögum.

Sjá einnig heildstætt efnisyfirlit

... sem teygir anga sína um refilsstigu réttlætisins,

til bakherbergja stjórnsýslunnar og afkima Alþingis.

bottom of page