top of page

Þessi vefsíða var uppfærð 28. október 2022 með dómi Hæstaréttar
26. október 2022
sem um leið er lokaniðurstaða málsins fyrir okkur.
Til samræmis hafa þrír síðustu punktarnir í „Helstu atriði“ hér
fyrir neðan verið endurbættir með nýjustu fréttum af málinu.

Eftir Steinar Berg Ísleifsson

Þessi samantekt er gerð til að vekja athygli á hvernig sértækir hagsmunir, ef framfylgt er af „valinkunnum“ einstaklingum og/eða hagsmunasamtökum, geta farið í gegnum stjórnsýsluna og Alþingi og orðið að lögum svo og þeim tregðulögmálum sem mæta almennum borgara, kjósi hann að leggja fram ábendingar og gagnrýni á störf stjórnsýslunnar og Alþingis.

Ágreiningur okkar Fossatúnshjóna við Veiðifélag Grímsár og Tunguár var útkljáður með Hæstaréttardómi 13. Mars 2014. Landsamband veiðifélaga, sem hafði aðkomu að málinu, hélt því fram að dómurinn væri rangur.

 

Formaðurinn fór á fund Sigurðar Inga Jóhannssonar, þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem réði hann til að breyta lögunum þannig að veiðifélög gætu haldið áfram þeirri starfssemi sem Hæstiréttur hafði meinað þeim að gera. Alþingi samþykkti lögin og viðhafði óvönduð vinnubrögð við lagasetninguna, svo ekki sé meira sagt.

 

Veiðifélögum er gert að starfa innan strangs afmarkaðs ramma. Það er forsenda skylduaðildar að þeim. Með lagabreytingunni er verið að teygja þennan afmarkaða ramma og gefa veiðfélögum kosta á að stuðla að og taka þátt í almennum samkeppnisrekstri við t.d. okkur sem erum bundin skylduaðild og lendum því í samkeppni við okkur sjálf. Við viljum hafa samkeppni en hún verður að sjálfsögðu að vera á sama grunni fyrir alla sem keppa. Lagasetningin skekkir þennan grunn.

Við erum líka tilbúin að samþykkja skylduaðildina, en hún verður þá að miðast við þau ströngu starfsskilyrði sem veiðifélögum er markaður. Við samþykkjum ekki skylduaðild að veiðifélagi sem hefur það markmið að standa í eignaumsýslu og hámarka arðsemi með þátttöku í almennum markaðsrekstri ... og er orðið atvinnurekstrarfélag skv. skilgreiningu Landsambands veiðifélaga. Aðild að þess konar félagi hlýtur að vera valkvæð en ekki skylduð með lögum sem byggja á undantekningu frá félagafrelsi stjórnaskrárinnar.

Fossatún er í Borgarfirði,

í mynni Lundareykjadals.

Helstu atriði:

Helstu atriði málsins
  • Við ábúendur, keyptum jörðina Fossatún í Borgarfirði árið 2001 og urðum þar með skyldufélagar í Veiðifélagi Grímsár og Tunguár. Hófum starfsemi árið 2005. Okkur mislíkaði að þurfa að standa í samkeppni við svarta atvinnustarfssemi í skjóli veiðifélagsins.

  • Eftir árangurslaus samskipti við veiðifélagið, úrskurð Fiskistofu og gerð álitsgerða Lagastofnunar Háskóla Íslands og Lögfræðistofunnar Réttar, ákváðum við að fara í dómsmál árið 2011.

  • Héraðsdómur Vesturlands dæmdi okkur í óhag. Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar sem dæmdi okkur í hag.

  • Skömmu eftir dóminn gekk formaður Landssambands veiðifélaga á fund sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Honum var falið að vinna að lagabreytingu ásamt starfsmönnum ráðuneytisins.

  • Við vinnu lagabreytingarinnar var hvorki leitað annarra sjónarmiða en þeirra sem formaður Landssambands veiðifélaga hélt fram né aflað gagna frá óháðum eða andstæðum aðilum.

  • Lagabreyting var lögð fram af ráðherra á Alþingi og því haldið fram að um minniháttar tímabæra uppfærslu væri að ræða þar sem skort hefði lagaheimildir og því hafi Hæstiréttur komist að rangri niðurstöðu. Þessi fullyrðing er alröng og órökstudd með öllu.

  • Þá felur lagabreytingin í sér nýja skilgreiningu á hlutverki veiðifélaga sem er í andstöðu við markmið laganna: Að veiðifélög skuli taka þátt í almennum hótel- og veitingarekstri til að hámarka arðsemi.

  • Atvinnuveganefnd kaus  að kanna ekki hvort lagabreytingin samræmdist stjórnarskrá, hefði áhrif á ríkissjóð, réttarstöðu aðildarfélaga veiðifélaga, almenna samkeppni ofl.

 

  • Við leituðum til ráðuneytisins og Alþingis til að fá samtal um vinnubrögð og niðurstöðu lagasetningarinnar, en án árangurs.

  • Stefndum Veiðifélaginu aftur til að fá úr því skorið hvort lagasetningin stæðist. Héraðsdómur Vesturlands taldi svo vera í sinni niðurstöðu sem var áfrýjað. Hér er að finna stefnugreinargerð okkar til Landsréttar og hér greinargerð veiðifélagsins. Uppfært 28. október 2022: Landsréttur reyndist sama sinnnis og staðfesti dóminn í héraði snemmárs 2022. Báðir dómarnir gengu út frá því að þar sem Alþingi hefði sett lög ætti að dæma eftir lögunum. Báðir skautuðu hinsvegar fram hjá meginspurningunni um hvort lagagerningur Alþingis gegn okkur stæðist, stjórnarskrá, félagafrelsi, skylduaðild, réttaröryggi, eignarrétt o.fl. Niðurstöður Héraðsdóms Vesturlands og Landréttar, einkennast af rangfærslum og útúrsnúningi á fyrirliggjandi staðreyndum. Ótrúleg lesning sem er dómurunum til háborinnar skammar.

  • Við áfrýjuðum til Hæstaréttar. Dómur var kveðinn upp 26.10. 2022. Framsetning og niðurstaða Hæstaréttar sýnir að málið hefur verið krufið og leiktjöldum svipt af feik-lögunum sem Alþingi samþykkti í taumi Landssambands veiðifélaga. Niðurstöðum Héraðsdóms Vesturlands og Landsréttar er hent í ruslið og Alþingi fær ákúrur fyrir óvönduð vinnubrögð.
     

  • Tíu ára þrautargöngu er lokið. Við erum sorgmædd eftir þá innsýn sem við öðluðumst í kynnum okkar við hagsmunaöfl, stjórnsýsluna, Alþingi og dómskerfið. Prísum okkur sæl með Hæstarétt sem gaf okkur aftur trú á réttsýni og tilgang lífsins.

Sjá einnig heildstætt efnisyfirlit

... sem teygir anga sína um refilsstigu réttlætisins,

til bakherbergja stjórnsýslunnar og afkima Alþingis.

bottom of page