top of page

Tildrög málarekstursins

Þegar við hjón vorum nýflutt í Fossatún fengum við að vita um ákvörðun stjórnar Veiðifélags Grímsár og Tunguár, sem við vorum nú orðin félagsmenn í, að leigja rekstur veiðihússins út sérstaklega til rekstaraðila sem hygðist halda út heilsárs starfssemi þar, sveitahóteli á veturna en óbreyttri starfssemi veiðihúss yfir laxveiðitímann. Við spurðumst fyrir hvort þetta væri eðlilegt og þáverandi formaður fullyrti að veiðifélaginu væri heimilt að ráðstafa eign sinni til að hámarka arð til félaga. Bætti við að rekstur veiðihússins hefði verið bras og baggi á veiðifélaginu, húsið væri allt of stórt og illa hannað og byggt og of dýrt í rekstri.

Það fóru hins vegar að renna á okkur tvær grímur eftir að við hófum rekstur í Fossatúni árið 2005 og fengum það staðfest að við vorum í samkeppni við svarta atvinnustarfssemi í veiðihúsi veiðifélags okkar. Einnig fannst okkur að veiðifélagið tæki allt of mikinn hluta arðs til sín vegna kostnaðar við að byggja upp veiðihúsið til þess að þjóna hlutverki og fjölga herbergjum vegna reksturs sveitahótels fyrir leigutakann yfir vetrarmánuðina, sem væri svo í beinni samkeppni við aðra óskylda starfsemi, þ.e. ferðaþjónustuaðila á svæðinu.

Eftir að hafa kynnt okkur málin, skoðað rekstrarumhverfi veiðihúsa og lús-lesið lax-og silungsveiðilögin, sýndist okkur að bygging og rekstur veiðihúsa væri afleidd ákvörðun af markmiðum lax- og silungsveiðilaganna, en ekki skrifuð í lögin, og að slík ákvörðun veiðifélagsins hlyti skv. lögunum að miðast við skilgreindan veiðitíma.

Áður fyrr þegar úrval gistiaðstöðu var takmarkað víðast á landsbyggðinni var skiljanlegt að hugað væri að byggingu veiðihúsa af veiðifélögum. Gjörbreyting hefði hins vegar orðið á aðstöðu og möguleikum til gistingar á síðari árum. Flestir ganga út frá því að bygging og rekstur veiðihúss sé arðberandi fyrir veiðifélag. Sú er þó alls ekki raunin skv. reynslu ábúenda Fossatúns. Steinar var endurskoðandi Veiðifélags Grímsár og Tunguár á tímabilinu 2004 – 2009 og kynntist því starfsemi félagsins innan frá. Á þeim tíma náðu tekjur af veiðihúsinu ekki að vera nema hluti rekstrarkostnaðar hússins. Þannig getur rekstur veiðihúss allt eins verið afar kostnaðarberandi og skilað tapi ef ekki er vandað til verka við ákvarðanatöku byggingar og reksturs.

Einnig þótti okkur liggja fyrir að varla væri heimilt samkvæmt lögum að leita tekjuaukningar með því að taka þátt í almennum samkeppnisrekstri, þannig að rekstrinum væri skipt upp í sölu laxveiðileyfa, sem ekki bera virðisaukaskatt annars vegar og hins vegar rekstur veiðihúss og taka sérstaklega upp svokallaða frjálsa skráningu virðisaukaskatts, sem gefur tækifæri til endurgreiðslna á innskatti. Þá fannst okkur það órökrétt að veiðfélagið gæti farið í eða staðið að almennum samkeppnisrekstri við eigin félaga sem hafa meiri hagsmuni af sínum rekstri en þá sem þeir hafa í veiðifélaginu, sem þeir eru þó bundnir skylduaðild að.

Okkur hjónum var tilkynnt snemma árs 2009 að þáverandi leigutaki myndi hverfa frá rekstri veiðihússins og það leigt leigutaka árinnar. Jafnframt að eftirleiðis myndi húsið einungis rekið sem veiðihús. Við vorum ánægð með þessa þróun eftir nokkurra ára ósætti við ríkjandi fyrirkomulag. Á haustdögum var þessari ákvörðun breytt og farið af meiri krafti en nokkurn tíma áður í að reka sveitahótel í veiðihúsinu. Við gerðum upp við okkur að óásættanlegt væri að vera lokuð inni, á grundvelli skylduaðildar, í félagi sem hefði að markmiði að starfa í samkeppni við okkur og væri að skaða margfalt meiri hagsmuni okkar en þá sem við nytum af félagsaðild.

Rituðum við í framhaldinu stjórn veiðifélagsins bréf, útlistuðum þessa vondu stöðu og fórum fram á að veiðifélagið hætti útleigu veiðihússins utan veiðitíma. Erindi okkar var hafnað og var vísað á Fiskistofu sem úrskurðaraðila í deilum innan veiðifélaga. Fiskistofa tók umkvörtun okkar fyrir og komst að þeirri niðurstöðu að rekstur hótels í veiðihúsinu utan veiðitíma samræmdist lögum um lax- og silungsveiði þar sem „um öldungis sambærilegan rekstur“ væri að ræða í veiðihúsinu innan og utan veiðitíma. Við tilkynntum veiðifélaginu að okkur fyndist niðurstaðan einna helst líkjast órökstuddri geðþóttaákvörðun og að við hygðumst leita réttar okkar fyrir dómstólum.

Skömmu síðar hafði þáverandi formaður veiðifélagsins, Þorsteinn Þorsteinsson, samband við okkur. Hann sagði að sér fyndist úrskurður Fiskistofu skrýtinn að mörgu leyti. Sagði hann jafnframt að eftir fund sinn með Landssambandi veiðifélaga, byðist landssambandið til að fá Lagastofnun Háskóla Íslands til að vinna álitsgerð vegna tilkomins ágreinings okkar í veiðifélaginu. Hann bað okkur að bíða með ákvörðun um málarekstur þar til álitsgerð Lagastofnunar lægi fyrir. Við samþykktum það.

Sjá einnig heildstætt efnisyfirlit

... sem teygir anga sína um refilsstigu réttlætisins,

til bakherbergja stjórnsýslunnar og afkima Alþingis.

bottom of page