top of page

Alþingi gefur fingurinn

Alþingismenn og -konur komu fram fyrir alþjóð í sjónvarpsútsendingu við upphaf þings í byrjun september 2019. Þar varð sumum þeirra tíðrætt um þann skort á virðingu sem er hjá þjóðinni gagnvart Alþingi og ítrekuðu m.a. þjónustuhlutverk sitt við almenning og mikilvægi góðs aðgengis fólks að löggjafanum, mikilvægi ábendinga almennings, mikilvægi skoðanaskipta og nauðsyn góðs samtals þjóðar og þings.

 

Ýmsar stjórnsýslu- og siðareglur (og siðareglur ráðherra) eru reyndar til um hvernig yfirvald á að koma fram gagnvart almennum borgurum. Má þar nefna: Að veita nauðsynlega og leiðbeinandi aðstoð, að svara með rökstuðningi, að virða upplýsingarétt, að tryggja gegnsæi, að stuðla að réttaröryggi, að ganga úr skugga um að sérhagsmunir stýri ekki niðurstöðu og að stefnumótun og ákvarðanataka mótist af sanngirni og virðingu fyrir lögum og almenningi. Svo eitthvað sé til talið.

Við hjón, ábúendur að Fossatúni í Borgarfirði, urðum fyrir þeirri reynslu að Alþingi hlutaðist til með beinum hætti í mál okkar þar sem ofangreind gildi voru öll brotin. Alþingi gaf okkur fingurinn. Sparifatatal um heilbrigð samskipti verður hjóm eitt eftir slíka reynslu.


Í örstuttu máli: Við fengum staðfestingu á að við værum í samkeppni við svarta atvinnustarfsemi í veiðihúsi Veiðifélags Grímsár og Tunguár, sem við höfum skylduaðild að. Gerðum athugasemdir en var vísað á dómstóla. Unnum í Hæstaréttarmáli nr. 676/2013. Veiðifélagið leitaði til Landssambands veiðifélaga sem fór í þá vegferð að fá lögum um lax- og silungsveiði breytt, með hljóðlátum hætti og án samráðs við aðra hagsmunaaðila. Þetta tókst með atfylgi Sigurðar Inga Guðmundssonar, þáverandi landbúnaðarráðherra. Hann réði formann Landssambands veiðifélaga til þess að semja lagabreytingu til að veiðifélög gætu gert það sem Hæstiréttur hafði dæmt á móti.

 

Atvinnuveganefnd Alþingis undir forsæti Jóns Gunnarssonar og Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur fetaði svo hlýðin sömu slóð. Sérhagsmunaaðilinn sagði þeim fyrir verkum og þau beittu rangfærslum í nefndaráliti og framsögu. Þingmenn samþykktu síðan lagabreytinguna í kranaafgreiðslu, meðvitundarlausir um inntak og afleiðingu þeirra. Ólög Alþingis nr. 50/2015 um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði, nr. 61/2006, urðu til.

Afleiðing þessa er sú að nú telja veiðifélög landsins sér heimilt að standa í almennum gisti- og veitingarekstri allt árið (þ.e. ekki bara á hefðbundnum veiðitíma) sem felur í sér þunga og niðurgreidda samkeppni við ferðaþjónustuaðila í héraði og hefur reynst gróðrarstía fyrir svarta atvinnustarfsemi. Samkvæmt skilgreiningu Landssambands veiðifélaga eru þau nú atvinnurekstrarfélög. Þannig á það sér stað að við í Fossatúni, sem og aðrir einstaklingar sem eiga land að veiðiám og reka ferðaþjónustu, höfum jafnframt skylduaðild að veiðifélögum og neyðumst þannig til að vera í samkeppni við okkur sjálf. Lesa má sólarsöguna alla á www.sveitasaga.com, frá og með upphafinu á síðu 1.


Við töldum að Alþingi hefði staðið ranglega að lagasetningunni

og litið fram hjá mörgum mikilvægum atriðum.

 

M.a. neðangreindu:


1. Atvinnuveganefnd þótti ekki tilefni til að kanna hvort lagagerðin stæðist félagafrelsisákvæði stjórnarskrárinnar og viðkomandi mannréttindasáttmála. – Við höldum því fram að skylduaðild að atvinnurekstrarfélagi standist hvorugt.


2. Atvinnuveganefnd ítrekaði að tilefni lagabreytingarinnar sé nefndur Hæstaréttardómur. – Sjónarmiðum málsaðilans sem tapaði var eingöngu haldið fram en aðilinn sem vann í Hæstarétti var sniðgenginn. Þá var Samtökum ferðaþjónustunnar ekki boðið að vera umsagnaraðili.


3. Atvinnuveganefnd fullyrti að ágreiningur um skylduaðild væri ekki hluti Hæstaréttardómsins. – Bæði málssóknin sjálf og niðurstaða Hæstaréttar grundvallaðist á skylduaðildinni.


4. Atvinnuveganefnd hélt því fram að markmiðið væri að breyta og auka lítillega við gildandi lög. – Flestir myndu telja að um grundvallarbreytingu væri að ræða en ekki smávægilega uppfærslu.


Ári eftir að lögin voru samþykkt fréttum við fyrst af tilvist þeirra, í mars 2016. Við ákváðum strax að setja sjónarmið okkar fram við Alþingi: Að lagasetningin hefði átt sér stað á hæpnum eða röngum forsendum. Hvort við mættum koma ábendingum á framfæri? Hvort möguleiki væri á að taka lögin upp væri fallist á rök okkar?


Okkur var ráðlagt af skrifstofu Umboðsmanns Alþingis að koma sjónarmiðum okkar á framfæri við stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis. Bréf var sent í apríl 2016 til Ögmundar Jónassonar, formanns nefndarinnar. Svar barst loks í október, þar sem okkur var tjáð að erindi okkar hefði verið framsent til landbúnaðarráðuneytisins þar sem það sneri að vinnubrögðum ráðuneytisins. Þetta var útúrsnúningur því erindi okkar sneri fyrst og fremst að vinnubrögðum Alþingis.

 

Annað bréf og beiðni um fund var sent í mars 2017 til Brynjars Níelssonar sem orðinn var formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndarinnar. Ekkert svar barst, þrátt fyrir ítrekanir.

 

Þriðja bréfið og beiðni um fund var svo sent til Helgu Völu Helgadóttur í maí 2018, en hún var þá orðin formaður nefndarinnar. Ekkert svar barst og hefur hún nú látið af setu í nefndinni. Nýr formaður tók við í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í september 2019, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir. Við sendum henni erindi og beiðni um fund 20. september 2019. Sjáum hvað setur en þegar þetta er skrifað einum og hálfum mánuði síðar, 7. nóvember 2019, hefur ekkert svar borist.


Það þykir óvirðing ef hnefinn með löngutöng upp á við er sýndur og otað að fólki. En það er ekki síður óvirðing þegar fólk sem á að vera í þjónustu almennings beitir þögn og þöggun eftir að hafa fengið kurteisa, rökstudda og málefnalega beiðni um fund og viðræður.

 

Slík framkoma er ígildi þess að gefa fingurinn og ekki til þess fallin að auka virðingu Alþingis.

Næsta síða: Lög samkvæmt pöntun

Sjá einnig heildstætt efnisyfirlit

... sem teygir anga sína um refilsstigu réttlætisins,

til bakherbergja stjórnsýslunnar og afkima Alþingis.

bottom of page